Ítalir haldi flóttamönnum frá Evrópu

AFP

Utanríkisráðherra Austurríkis, Sebastian Kurz, hefur beint þeim tilmælum til ítalskra yfirvalda að reyna að koma í veg fyrir að flóttafólk nái til meginlandsins með því að stöðva ferjusiglingar frá eyjunum þar sem það fyrst kemur að landi. AFP-fréttaveitan greinir frá.

Kurz segist hafa sagt ítölskum kollega sínum, Angelino Alfanao, á fundi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í dag, að björgunaraðgerðir á Miðjarðarhafinu mættu ekki virka sem farmiði til Mið-Evrópu,

„Við vonumst til að hætt verði að sigla með hælisleitendur á milli ítölsku eyjanna, eins og Lampedusa og Ítalíu. Ef fólk kemst fljótt og örugglega til meginlandsins þá heldur það áfram norður. Það eykur ekki aðeins vandann heldur hvetur fleiri til að fara af stað og reyna að ná til Evrópu,“ sagði Kurz jafnframt.

Um 90 þúsund flóttamenn hafa komið til Ítalíu á þessu ári, en þeim hefur fjölgað um 10 prósent miðað við sama tíma fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert