„Þotu-munkurinn“ ákærður fyrir nauðgun

Wiraphon Sukphon ræðir við lögreglu í Taílandi eftir að hann …
Wiraphon Sukphon ræðir við lögreglu í Taílandi eftir að hann var framseldur frá Bandaríkjunum. AFP

Taílenskur dómstóll ákærði í dag fyrrverandi Búddamunk fyrir nauðgun og peningaþvætti, eftir að taílensk yfirvöld fengu hann framseldan frá Bandaríkjunum.

Mikill meirihluta Taílendinga eru Búddatrúar og Búddamunkar í landinu eru nú um 300.000 talsins. Hneykslismál tengd munkunum hafa þó valdið munkastéttinni töluverðri hneisu undanfarna mánuði.

Munkurinn fyrrverandi, Wiraphon Sukphon, var handtekinn á flugvelli í Bangkok á miðvikudagskvöldið, við komuna frá Bandaríkjunum. Wiraphon flúði til Bandaríkjanna 2013  og kom á fót óformlegri Búddamiðstöð þar í landi.

Hann á nú yfir höfði sér fimm ákærur, m.a. fyrir að nauðga stúlku sem ekki hafði náð 15 ára aldri, en viðurlög við þeim glæp eru allt að 20 ára fangelsisvist.

„Glæpadómstóllinn hefur fallist á að taka fyrir málið gegn Wiraphon,“ hefur AFP-fréttastofan eftir talsmanni sérdeildar lögreglunnar.

Wiraphon komst í fréttirnar árið 2013 þegar myndir birtust af honum, ásamt tveimur öðrum munkum um borð í einkaþotu með sólgleraugu og dýrar töskur frá Louis Vuitton. Gáfu götublöðin í kjölfarið Wiraphon viðurnefnið „Þotu-munkurinn“.

Í kjölfarið var hald lagt á eigur Wiraphons sem voru metnar á andvirði um 770.000 Bandaríkjadala, m.a. Porche og Benz bifreiðar, sem og 41 bankareikning. Wiraphon átti þá barn með stúlkunni sem hann er ákærður fyrir að hafa nauðgað.

Eftir að upp komst um líferni Wiraphons var hann sviptur munkakuflinum, en hann hélt engu að síður áfram að koma fram sem Búddamunkur og setti á fót Búddamiðstöð í Kaliforníu í Bandaríkjunum eftir að hann flúði þangað.

Það var svo í maí á þessu ári sem bandarísk yfirvöld samþykktu framsalsbeiðni taílenskra yfirvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert