Helmingur múslima upplifað mismunun

Fólk á fundi hjá félagi múslima í Chicago nú í …
Fólk á fundi hjá félagi múslima í Chicago nú í sumar. AFP

Tæpur helmingur múslima í Bandaríkjunum hefur upplifað mismunun undanfarið ár. Þetta eru niðurstöður nýrrar könnunar Pew Research Center-rannsóknarmiðstöðvarinnar. 

Þrír fjórðu segja „mikla“ mismunun gegn múslimum og 74% segja Donald Trump Bandaríkjaforseta vera „fjandsamlegan í garð“ þeirra.

BBC segir að í sambærilegri könnun, sem gerð var árið 2011, sögðu 64% að Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti, væri „vinsamlegur“ í þeirra garð.

Könnunin er líka sögð benda til þess að múslimar í Bandaríkjunum séu að verða frjálslyndari og var nefnt sem dæmi að fjöldi þeirra sem sögðu samfélagið eiga að samþykkja samkynhneigð hafði nær tvöfaldast.

Helmingur þeirra rúmlega 1.000 múslima, sem rannsakendur ræddu við í símakönnuninni, nefndu tortryggni í sinn garð sem dæmi um þá mismunun sem þeir hefðu orðið fyrir. Þá nefndu 32% að vera valdir út í öryggisleit á flugvöllum, 19% höfðu verið uppnefndir, 18% höfðu verið valdir til athugunar af lögreglu, 10% hafði verið ógnað með ofbeldi og 6% höfðu orðið fyrir árás.

Helmingur þeirra sem þátt tóku í könnuninni sagði þá að það hefði orðið erfiðara að vera múslimi í Bandaríkjunum á undanförnum árum.

Sumir upplifðu sig óörugga fyrir vikið. „Við verðum að fylgjast sérstaklega vel með nánasta umhverfi okkar, vita hvar við erum, hverjir eru á staðnum og hvaða augum þeir líta íslamstrú,“ sagði einn þátttakendanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert