Segir samkomulag um miðlun farþegaupplýsinga brjóta gegn mannréttindum

AFP

Evrópudómstóllinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að samkomulag Evrópusambandsins og stjórnvalda í Kanada um að deila farþegaupplýsingum brjóti gegn grundvallarmannréttindum. Það verður því ekki að veruleika í óbreyttri mynd.

Aðilar hófu viðræður um samkomulagið árið 2010 eftir áköll stjórnvalda í Washington um aukna samvinnu til að berjast gegn hryðjuverkaógninni. Evrópudómstóllinn segir samkomulagið hins vegar ganga of langt og brjóta gegn þeim réttindum sem tryggð eru í Evrópulögum.

Dómstóllinn segir markmið samkomulagsins, þ.e. baráttan gegn hryðjuverkum, réttlætanlegt, en mörg ákvæða þess séu ekki takmörkuð við það sem sé bráðnauðsynlegt. Þá skorti skýrar reglur.

Samkomulagið hefði gert Evrópusambandsríkjunum og Kanada kleift að deila öllum þeim upplýsingum sem farþegar veita þegar þeir bóka flug, m.a. upplýsingar um flugmiða, farangur, greiðslur, ferðaáætlanir og tengda aðila. 

Evrópudómstóllinn sagði miðlun, vinnslu og geymslu slíkra upplýsinga ganga gegn rétti fólks til friðhelgis einkalífsins og verndun persónuupplýsinga.

Evrópusambandið hefur gert áþekkt samkomulag við Bandaríkin og Ástralíu. Ráðamenn segja að í kjölfar dómsins verði aftur gengið að samningaborðinu og þá verði áður gerðir samningar endurskoðaðir með dóminn í huga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert