Myrti systur sína og frænkur

Antonio Williams.
Antonio Williams.

Ungur maður frá Maryland í Bandaríkjunum hefur verið handtekinn í tengslum við morð á þremur stúlkum undir tíu ára aldri, sem fundust látnar á heimili í bænum Clinton. Ein þeirra var systir hans og hinar tvær frænkur hans.

Hinn 24 ára gamli Antonio Williams var handtekinn í gærkvöldi, en hann hafði verið að passa stúlkurnar þegar hann réð þeim bana. Hefur hann játað á sig morðin, en hann stakk hverja og eina stúlknanna ítrekað þar sem þær lágu í einbreiðu rúmi í herbergi hússins.

Í yfirlýsingu frá lögreglu á svæðinu kom fram að móðir hans hafi verið á næturvakt aðfaranótt föstudags, en hún starfar sem hjúkrunarfræðingur. Hún hafi því falið Williams að passa stúlkurnar. Þegar hún kom heim eftir vaktina á föstudagsmorgun fann hún þær hins vegar látnar í rúminu.

Tvær stúlknanna voru sex ára, og sú þriðja níu ára. Voru þær allar með stungusár víða á líkömum sínum þegar þær fundust. Fjórða stúlkan sem Williams var falið að passa, tveggja ára gömul systir hans, fannst óhult á heimilinu. Hún var ekki með neina áverka.

Williams gerði enga tilraun til að flýja þegar lögregla handtók hann. Þá játaði hann morðin í yfirheyrslum. Ekki er hins vegar ljóst hvað vakti fyrir honum þegar hann myrti stúlkurnar.

Frænkurnar tvær höfðu verið í heimsókn hjá fjölskyldunni yfir helgina.

Williams hefur ekki komist í kast við lögin áður og lögregla hefur aldrei fyrr verið kölluð að heimilinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert