Wall leitað við strendur Svíþjóðar

Sænsk og dönsk yfirvöld leita nú að vísbendingum um Kim …
Sænsk og dönsk yfirvöld leita nú að vísbendingum um Kim Wall m.a. við Eyrarsundsbrúnna. T AFP

Leit stendur enn yfir af sænsku blaðakonunni Kim Wall sem hefur verið saknað frá því á fimmtudagskvöld í síðustu viku. Sænsk yfirvöld leita nú við suðurströnd Skáns. Notast er meðal annars við þyrlur og báta við leitina. 

Wall hvarf sporlaust eftir að hafa farið um borð í kafbát með eiganda hans og hönnuði, Peter Madsen. Til stóð að báturinn kæmi aftur til hafnar í Kaupmannahöfn að kvöldi fimmtudags en ekkert bólaði á honum fyrr en á föstudagsmorgun. Hann sökk svo í Køge-flóa og var Madsen einum bjargað frá borði.

Báturinn var hífður upp en Wall var ekki um borð. Lögreglan telur líklegast að hún sé látin og að Madsen beri ábyrgð á dauða hennar. Hann hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. september.

Leitin að Wall í hafinu var í fyrstu nær eingöngu á forræði danskra yfirvalda en um helgina báðu þau Svía um aðstoð og hefur leitin verið umfangsmikil alla helgina. „Við leitum að öllu sem dönsku lögreglunni gæti þótt athyglisvert,“ segir Jimmy Modin, talsmaður lögreglunnar í Svíþjóð, í samtali við BT.dk.

Leitað var til sænskra yfirvalda eftir að rannsókn á hafstraumum hafði verið gerð.

Madsen útskýrði hvarf Wall í fyrstu með því að hann hefði sett hana í land á svipuðum slóðum og þau lögðu frá bryggju fimmtudagskvöldið 10. ágúst. Hann hefur síðar breytt þeim framburði sínum en lögreglan heldur spilunum þétt að sér og hefur ekki upplýst um gang rannsóknarinnar í smáatriðum eða hvað hefur komið fram í yfirheyrslum yfir Madsen.

Lögmaður Madsen sagði í síðustu viku að hann neitaði enn sök þó að hann ætlaði ekki að áfrýja gæsluvarðhaldsúrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert