Höfnuðu risaverkefni vegna mörgæsa

Humboldt-mörgæs.
Humboldt-mörgæs. Ljósmynd/Pixbay

Síle hefur hafnað rúmlega 260 milljarða króna fjárfestingarverkefni í járnnámu í landinu til þess að vernda mörgæsategund sem er í útrýmingarhættu. Frá greinir AFP.

Námufyrirtækið Andes Iron sóttist eftir því að hefja námugröft í járnnámu í Coqumbo-héraði og var verkefnið metið á tvo og hálfan milljarð bandaríkjadala sem nemur rúmlega 260 milljörðum króna.

Ákveðið var innan stjórnarráðs landsins að hafna verkefninu þar sem stjórnvöldum þótti námufyrirtækið ekki hafa sýnt fram á að fyrirbyggjandi aðgerðir kæmu í veg fyrir skaða á mörgæsastofni í útrýmingarhættu á því svæði sem námugröfturinn átti að fara fram. Um er að ræða mörgæsir af Humboldt-tegund.

Umhverfisráðherra landsins segir ríkisstjórnina hlynnta verkefnum sem stuðli að frekari hagvexti ríkisins en aðgerðirnar sem námufyrirtækið ætlaði að ráðast í til að fyrirbyggja umhverfisspjöll hefðu ekki verið nægilega miklar til að tryggja mörgæsirnar. „Við erum ekki á móti efnahagslegri uppbyggingu eða verkefnum sem eru nauðsynlegar hagvextinum, en þeir verða að bjóða viðeigandi ráðstafanir vegna umhverfisáhrifanna sem námugröfturinn mun hafa,“ segir Marcelo Mena, umhverfisráðherra Síle.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert