Vara við uppgangi AfD

Angela Merkel, kanslari Þýskalands og hennar helsti andstæðingur í stjórnmálum, Martin Schulz, héldu fundi með stuðningsmönnum sínum í dag. Þingkosningar fara fram í Þýskalandi á morgun og hvetja þau bæði kjósendur til þess að hunsa hægriflokkinn  Alternative für Deutschland, AfD.

Nýjustu skoðanakannanir benda til þess að flokkur þjóðernissinna, Nýr valkostur fyrir Þýskaland, AfD, hafi aukið fylgi sitt og verði þriðji stærsti flokkurinn á þýska þinginu eftir kosningarnar.

Merkel hefur verið kanslari í tólf ár en flokkur hennar, Kristilegir demókratar (CDU), hefur misst töluvert fylgi undanfarna vikur. 

AfD hefur verið að mælast með 11-13% fylgi að undanförnu en meðal stefnumála flokksins er að berjast gegn straumi flóttamanna til Þýskalands en talið er að um einn milljón flóttamenn, flestir múslímar frá Sýrlandi Írak og Afganistan, hafi flúið til Þýskalands undanfarin ár. 

Alþjóðleg samtök gyðinga,International Auschwitz Committee, hafa varað við uppgangi AFD sem ali á hatri á gyðingum og séu óvinir lýðræðis.

Merkel, sem stuðningsmenn AfD segja svikara, lét baul og óp frá aðgerðarsinnum stöðva sig á fundi í gærkvöldi í München. Sagði hún að framtíð Þýskalands myndi ekki byggja á ópum og köllum frá múgæsingarfólki.

Schulz, leiðtogi jafnaðarmanna, minnti á að flokkur hans hafi barist gegn því að nasistar næðu uppgangi á ný í Þýskalandi og að AfD byði ekki upp á nýjan vettvang heldur væri flokkurinn skömm fyrir þýsku þjóðina.

Utanríkisráðherra Þýskalands, Sigmar Gabriel, sem einnig er jafnaðarmaður, varar við því að í fyrsta skipti eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar sé hætta á að alvöru nasistar sætu á þýska þinginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert