Írakar ná bænum Sinjar á sitt vald

Íraksher hefur náð bænum Sinjar á sitt vald en flestir íbúarnir þar eru jazídar og Kúrdar. Hersveitir Kúrda höfðu ráðið yfir bænum frá árinu 2014.

Hersveitir Íraka halda uppi linnulausum árásum á hersveitir Kúrda á svæðum sem Kúrdar ráða í norðurhluta landsins.

Atburðir sem áttu sér stað í bænum Sinjar eru mörgum í fersku minni en þar drápu vígasveitir Ríkis íslams þúsundir karla úr hópi jazída árið 2014. Hundruðum jazída-kvenna var rænt og þær gerðar að kynlífsþrælum vígamanna og stuðningsmanna þeirra. Atburðirnir þar urðu meðal annars til þess að Bandaríkjaher blandaði sér í stríðið gegn Ríki íslams í Írak og Sýrlandi.

Peshmerga, hersveitir íraskra Kúrda, náðu bænum Sinjar við samnefnt fjall í norðurhluta Íraks á sitt vald í lok ársins 2014.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert