Önnu Frank hrekkjavökubúningur vekur reiði

Anna Frank lést í útrúmingaarbúðum nasista.
Anna Frank lést í útrúmingaarbúðum nasista. Ljósmynd/Wikipedia.org

Hrekkjavökubúningur sem á koma börnum og unglingum í gervi gyðingastúlkunnar, Önnu Frank, eins frægasta fórnarlambs helfararinnar, hefur verið gagnrýndur mikið á samfélagsmiðlum frá því að hann birtist fyrst sem hluti af búningaúrvali netverslana fyrir hrekkjavökuna. BBC greinir frá.

Fjölmargar netverslanir sem höfðu búninginn til sölu hafa fjarlægt hann af vörulista sínum og hann því ekki fáanlegur hjá þeim lengur. Aðrar verslanir hafa einfaldlega breytt lýsingunni á búningnum yfir í stúlku úr seinni heimsstyrjöldinni. „Nú getur barnið þitt brugðið sér í gervi stríðshetju,“ stendur í texta við mynd af búningnum.

Anna Frank var ásamt fjölskyldu sinni í felum í tvö ár og skrifaði hún dagbók um líf sitt á þeim tíma. Fjölskyldan var að lokum handsömuð og flutt í útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz, þar sem Anna lést. Faðir hennar var sá eini í fjölskyldunni sem lifði vistina í útrýmingarbúðunum af.

Búningurinn umdeildi.
Búningurinn umdeildi. Skjáskot af Twitter

Fólk hefur hellt úr skálum reiði sinnar lýst yfir hneykslan á samfélagsmiðlum yfir því hvernig búningasaumsfyrirtæki hafi getað tekið jafn táknræna persónu og Önnu Frank, byggt búning á henni og tengt við hrekkjavökuna. Mörgum þykir það algjörlega óviðeigandi og tillitslaust.

Netverslunin Halloweencostumes.com var ein þeirra sem tók búninginn úr sölu eftir gagnrýni. Talsmaður fyrirtækisins, Ross Walker Smith, baðst afsökunar á því ef fyrirtækið hefði móðgað einhvern. Hann sagði jafnframt að fyrirtækið seldi ekki eingöngu hrekkjavökubúninga, heldur búninga við ýmis tilefni.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem umdeildir hrekkjavökubúningar valda fjaðrafoki, en árið 2015 vakti til að mynda gervi ísraelsks hermanns fyrir börn litla lukku. Árið áður var það búningur sem þótti tilvísun í ebólu-faraldur í Vestur-Afríku, sem vakti upp reiði hjá fólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert