Tarantino vissi af misnotkuninni

Quentin Tarantino og Harvey Weinstein í febrúar á síðasta ári.
Quentin Tarantino og Harvey Weinstein í febrúar á síðasta ári. AFP

Leikstjórinn Quentin Tarantino hefur viðurkennt að hafa vitað í áratugi af meintri kynferðislegri misnotkun kvikmyndaframleiðans Harvey Weinstein og að hann skammist sín fyrir að hafa ekki hætt að vinna með honum.

Þetta kom fram í viðtali við Tarantino í The New York Times.

„Ég vissi nóg til að gera meira en ég gerði,“ sagði Tarantino, sem er 54 ára, um vin sinn og læriföður.

„Þetta var meira en bara þessi venjulegi orðrómur, þetta venjulega slúður. Ég heyrði þetta ekki frá öðrum. Ég vissi að hann hefði gert nokkra af þessum hlutum.“

Weinstein hefur verið sakaður um kynferðislega misnotkun og áreitni í garð um 40 leikkvenna, þar á meðal Gwyneth Paltrow, Angelina Jolie og Mira Sorvino, fyrrverandi kærustu Tarantinos.

Leikstjórinn segist hafa heyrt af hegðun Weinstein löngu áður en upplýsingarnar um misnotkunina voru gerðar opinberar.

„Ég vildi óska að ég hefði tekið ábyrgð á því sem ég heyrði. Ef ég hefði gert það sem ég hefði átt að gera hefði ég aldrei unnið með honum aftur.“

Sorvino, sem var kærasta Tarantinos um miðjan tíunda áratuginn, sagði honum að Weinstein hefði áreitt hana kynferðislega. Önnur leikkona sakaði Weinstein um svipaða hluti mörgum árum síðar, sem Tarantino vissi einnig af.

Leikstjórinn sagðist einnig hafa vitað af því að Weinstein hafi greitt leikkonunni Rose McGowan skaðabætur.

„Ég gerði lítið úr atvikunum,“ sagði Tarantino og viðurkenndi að hafa ekki talið hegðunina alvarlega.

Quentin Tarantino.
Quentin Tarantino. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert