Endurskoðar ákvörðunina um Mugabe

Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. Það eru ekki allir þeirrar skoðunar …
Robert Mugabe, forseti Zimbabwe. Það eru ekki allir þeirrar skoðunar að hann eigi að vera góðgerðarsendiherra. AFP

Yfirmaður Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO) greindi frá því í dag að hann sé að endurskoða þá ákvörðun sína að gera Robert Mugabe, forseta Zimbabwe, að góðgerðarsendiherra.

Greint var frá því fyrr í dag að Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, hefði nú í vikunni beðið hinn 93 ára Mugabe að gerast góðgerðarsendiherra vegna þess hluta sem hann hefur átt í að draga úr sjúkdómum á borð við hjartaáföll, heilablóðföll og astma í Afríkuríkjum.

Ákvörðunin hefur víða verið fordæmd, enda er Mugabe umdeildur og bentu margir m.a. á að heilbrigðiskerfi Zimbabwe, líkt og fjöldi annarra ríkisstofnanna landsins, hefði hrunið í stjórnartíð Mugabes.

„Ég er að hlusta. Ég heyri áhyggjur ykkar. Endurhugleiði verklagið í ljósi gilda WHO. Ég mun senda yfirlýsingu frá mér hið fyrsta,“ sagði Ghebreyesus, sem er fyrrverandi heilbrigðisráðherra Eþíópíu, á Twitter.

Hann hefur verið yfirmaður WHO frá því í júlí á þessu ári og er fyrsti Afríkubúinn til að leiða stofnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert