Sprengjusveitin kölluð út á skemmtistað

Öryggisverðir skemmtistaðarins afvopnuðu manninn og segja að svo virðist sem …
Öryggisverðir skemmtistaðarins afvopnuðu manninn og segja að svo virðist sem hann hafi verið með sprengjubelti um sig og eldsprengjur í bakpoka sínum. Skjáskot/Facebook

Sprengjusveit sænsku lögreglunnar var kölluð út á Skáni í nótt og þurfti að loka stórum hluta miðbæjar Ängelholm eftir að maður henti brennandi hlut inni á skemmtistað sem var fullur af fólki.

Danska fréttastofan Ritzau segir manninn, sem er 21 árs gamall, hafa verið handtekinn fyrir morðtilraun.

Á vef sænska ríkisútvarpsins SVT segir að einn hafi særst í árásinni, en árásarmaðurinn er einnig sagður hafa verið vopnaður hnífi og þá fann lögregla á honum hlut sem einnig er talinn hættulegur.

„Ég vil ekki tjá mig um hvaða hlutur þetta var, af því að rannsóknin er enn í gangi,“ sagði Mikael Lindh, lögreglumaður á vakt, í samtali við SVT.

Á facebooksíðu skemmtistaðarins 19Hundra, þar sem árásin var gerð, segir hins vegar að: „Maðurinn var með stóran eldhúshníf og svo var hann með eitthvað um sig miðjan sem líktist sprengjubelti. Hann virtist reyna að virkja það þegar við réðum niðurlögum hans.“

Öryggisverðir á skemmtistaðnum afvopnuðu manninn áður en lögregla kom á vettvang og segir á síðunni að fleiri munir sem líkst hafi eldsprengjum hafi fundist í bakpoka mannsins, auk þess sem þar hafi verið að finna texta trúarlegs eðlis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert