Gert að borga fyrir flugvélarnar 11. september

Árásin á tvíburaturnana í New York kostaði rúmlega 2.750 manns …
Árásin á tvíburaturnana í New York kostaði rúmlega 2.750 manns lífið. Wikipedia

Bandarísku flugfélögin American Airlines og United Airlines hafa fallist á að greiða verktaka 95,1 milljón dollara sáttabætur vegna árásanna Tvíburaturnanna í New York 11. september 2001 og er 13 ára málaferlum þar með lokið.

Tryggingafélög flugfélaganna munu sjá um greiðslu til fasteignafélagsins, World Trade Center Properties, sem er í eigu verktakans Larry Silverstein.

Sex vikum áður en árásin var gerð undirritaði Silverstein leigu á lóðinni til 99 ára, en lóðin er í eigu hafnaryfirvalda New York og New Jersey.

Silverstein hafði áður fengið 4,55 milljarða dollara bótagreiðslu frá eigin tryggingafélagi vegna turnanna eftir áralangar viðræður. Hann fór þó einnig í mál við flugfélögin vegna flugvélanna sem notaðar voru í árásunum. Upphaflega fór hann fram á 12,3 milljarða dollara bætur frá flugfélögunum og fyrirtækjum sem sjá um öryggiseftirlit á flugvöllum.

Rúmlega 2.750 manns létust í árásum al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna á Tvíburaturnana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert