Ætla að senda rohingjana til baka

Hópur rohingja á flótta yfir Naf-ánna sem er á landamærum …
Hópur rohingja á flótta yfir Naf-ánna sem er á landamærum Búrma og Bangladess. AFP

Hundruð þúsunda rohingja verða send aftur til Búrma samkvæmt samkomulagi sem stjórnvöld landsins og Bangladess, þangað sem fólkið hefur flúið, hafa gert með sér.

Ekki hefur verið upplýst um nein smáatriði samningsins að því er fram kemur í frétt BBC en fulltrúar stjórnvalda landanna tveggja undirrituðu samkomulagið í höfuðborg Búrma í dag.

Stjórnvöld í Bangladess segja þetta „fyrsta skrefið“. Stjórnvöld í Búrma segjast tilbúin að taka við rohingjunum „svo fljótt sem auðið er“.

Mannréttinda- og hjálparsamtök óttast að ekki reynist unnt að tryggja öryggi rohingjanna í Búrma og hafa því efasemdir um samkomulagið. Í skýrslu Amnesty International, sem birt var í gær, segir m.a. af kerfisbundinni útilokum rohingja í Búrma. Þeim hafi verið safnað saman á svæði í landinu og ekki haft ferðafrelsi. Her landsins hafi drepið þá og nauðgað þeim og brennt hús þeirra til grunna. Herinn vísar þessum ásökunum alfarið á bug. 

Rohingjar voru gerðir ríkisfangslausir með lögum í Búrma á níunda áratug síðustu aldar. Þeir höfðu þá lengi sætt mismunun í samfélaginu. 

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, segir að aðgerðir hersins gegn rohingjum séu þjóðernishreinsanir og fleiri hafa tekið undir þá skilgreiningu hans, m.a. Sameinuðu þjóðirnar. 

Talið er að um 620 þúsund rohingjar hafi flúið frá Búrma og til nágrannalandsins Bangladess síðustu mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert