Spennan magnast í Alabama

Donald Trump Bandaríkjaforseti ítrekaði stuðning sinn við Roy Moore, fyrr­ver­andi for­seta hæsta­rétt­ar í Ala­bama, sem hef­ur verið sakaður um kyn­ferðis­brot gagn­vart mörg­um kon­um, í gærkvöldi. 

Moore er í fram­boði til sæt­is í öld­unga­deild Banda­ríkjaþings þar sem hann etur kappi við demó­krat­ann Doug Jo­nes. Kosn­ing­arn­ar eru haldn­ar til að finna eft­ir­mann Jeff Sessi­ons en hann var nýlega skipaður dóms­málaráðherra Banda­ríkj­anna. Íbúar Alabama ganga að kjörborðinu í dag en kjörfundur hefst klukkan 13 að íslenskum tíma. 

„Allir í þessu ríki - og flestir Bandaríkjamenn- eru að fylgjast með þessum kosningum,“ sagði Moore á fundi með nokkur hundruð stuðningsmönnum sínum í gærkvöldi. Var það í fyrsta skipti sem hann kom fram opinberlega í sex daga eftir að hafa harðlega gagnrýnt fólk fyrir að reyna koma höggi á sig. 

Mikið hefur gengið á að undanförnu og hart barist á báða bóga. Meðal þeirra sem hafa blandast inn í baráttuna er Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, en hann hvetur fólk til þess að mæta á kjörstaði og taka þátt. 

Trump hefur heldur ekki legið á liði sínu og sendi út eftirfarandi skilaboð: „Ég þarf á Alabama að halda, farið og kjósið Roy Moore.“

Þangað til nýlega hefði þótt óhugsandi að repúblikani myndi tapa í kosningum í Alabama en þar hefur demókrati ekki verið kjörinn í öldungadeildina síðan árið 1992. En Moore hefur reynst erfiður biti fyrir repúblikana að kyngja eftir að Washington Post birti grein þar sem rætt er við konur sem Moore áreitti kynferðislega þegar þær voru unglinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert