Sýna föt fórnarlamba nauðgana

Dæmi um fatnað sem kona klæddist er henni var nauðgað.
Dæmi um fatnað sem kona klæddist er henni var nauðgað. Skjáskot

Hvernig varstu klædd? er yfirskrift sérstæðrar sýningar á fötum fórnarlamba nauðgana sem nú fer fram í Brussel. Yfirskriftin vísar til spurningar sem konur sem kæra nauðgun þurfa oft að svara.

Sýningin svarar þeirri spurningu: Fórnarlömb nauðgana klæðast alls konar fötum.

Í frétt Reuters um málið segir að fötin séu þau sömu og ungar, bandarískar konur klæddust er þeim var nauðgað. Hugmyndin að sýningunni tengist verkefni sem unnið var af nemendum við Háskólann í Kansas.

Delphine Goossens, sem stendur fyrir sýningunni í Brussel fékk leyfi frá verkefnastjórnunum í Kansas-háskóla til að endurgera sýninguna. Í þeim tilgangi safnaði hún eigin fötum og vinkvenna sinna sem voru sambærileg þeim og bandarísku konurnar klæddust er þeim var nauðgað.

Á sýningunni má sjá náttföt, náttslopp, skólabúning og lögreglubúning, svo dæmi séu tekin. „Þegar maður sér öll þessi föt þá sýnir það manni að þetta getur komið fyrir alla, hvar sem er og hvenær sem er,“ hefur Reuters eftir einum sýningargesti. „Ég vona að þetta breyti hugarfari fólks og að það hætti að kenna fórnarlambinu um nauðganir og annað ofbeldi.“

Goossens vonar að sýningin verði sett upp víðar í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert