#metoo-forsprakki kærður fyrir meiðyrði

Franska blaðakonan Sandra Muller hefur verið kærð fyrir meiðyrði.
Franska blaðakonan Sandra Muller hefur verið kærð fyrir meiðyrði. AFP

Sandra Muller, franska blaðakonan sem kom af stað #metoo-öldu í Frakklandi, hefur verið kærð fyrir meiðyrði. Franski sjónvarpsstjórinn, Eric Brion, hefur ákveðið að kæra Muller sökum þess að hún sagði frá því að hann hefði niðurlægt hana.  

„Ég mun fullnægja þér í allt kvöld“

Muller greindi frá því á Twitter-síðu sinni að Brion hefði sagt við sig: „Þú ert með stór brjóst. Þú ert mín týpa af konu. Ég mun fullnægja þér í allt kvöld.“ Færsla Muller kom af stað öldu frásagna af áreitni og árásum sem franskar konur hafa orðið fyrir undir myllumerkinu #balancetonporc (sem útleggja má „hríndu á grísinn þinn“).

Í fyrstu baðst Brion aföskunar á ummælum sínum opinberlega en í dag greindi Muller frá því að hann hafi ákveðið að „skipta um stefnu“.

Krefst 50.000 evra í skaðabætur

„Mér hefur verið birt stefna, þar sem herra Brion krefst 50.000 evra í skaðabætur vegna ærumeiðingar, birtingar úrskurðarins og 10.000 evra vegna lögfræðikostnaðar,“ skrifaði Muller á Facebook-síðu sína.

Muller segist óhrædd að halda sínu striki en hún er ein þeirra sem tímaritið Time útnefndi sem persónu ársins 2017 fyrir að hafa rofið þögnina. „#balancetonporc hefur orðið til þess að raddir fórnarlamba heyrast og hefur varpað ljósi á raunverulegt vandamál í samfélaginu, sem enn er tabú,“ sagði Muller.

Hún segist vona að réttarhöldin verði til þess að alvöru umræða eigi sér stað um það hvernig skuli berjast gegn kynferðislegri áreitni. Samkvæmt fréttastofu AFP á enn eftir gefa út dagsetningu réttarhaldanna vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert