„Djákni dauðans“ játar allt að 20 morð

Kaþólski djákninn Ivo Poppe, aftast fyrir miðju, sagðist hafa vilja …
Kaþólski djákninn Ivo Poppe, aftast fyrir miðju, sagðist hafa vilja binda endi á þjáningar fólksins. AFP

Kaþólski djákninn Ivo Poppe, sem starfaði áður sem hjúkr­un­ar­fræðing­ur, hefur viðurkennt fyrir rétti að hafa myrt allt að 20 manns. Morðin sagði hann þó hafa verið ætluð til að binda endi á „þjáningar“ þeirra, að því er belgískir fjölmiðlar greindu frá.

Poppe, sem belgískir fjölmiðar hafa kallað „djákna dauðans“ hefur ekki áður tilgreint fjölda fórnarlamba sinna.

„Á milli 10 og 20, í mesta lagi 20. Það er áætlun, en það er í kringum þann fjölda,“ sagði Poppe við dómara.

Réttarhöld hófust yfir Poppe í Bruges í gær, en hann er grunaður um að hafa myrt að minnsta kosti tíu manns, þar á meðal móður sína, með því að ýmist sprauta lofti inn í æðar þeirra eða með því að gefa þeim bannvænan skammt af valíumi .

„Ég vildi binda endi á þjáningar þeirra. Þetta fólk lifði í raun ekki lengur.“

Ýkti fjölda fórnarlamba til að fá aðstoð

Flest fórnarlamba hans voru eldra fólk sem þjáðist af andlegum eða líkamlegum veikindum og sem dvöldu á sjúkrahúsi í bænum Menin, en Poppe starfaði þar á níunda og tíunda áratug síðustu aldar. Hann hélt svo áfram að koma í prestsheimsóknir þangað eftir að hann vígðist til djákna.

Við upphaflegar yfirheyrslur sagði Poppe lögreglu að móðir hans, stjúpfaðir og tveir frændur væru meðal fórnarlamba hans. Hann var fyrst handtekinn árið 2014 eftir að yfirvöld fengu fregnir af því að hann hefði trúað geðlækni sínum frá því að hann hefði framið líknadráp á tugum manna.

Sagðist Poppe hafa ýkt fjöldann í samtali við geðlækninn af því að hann hafi virkilega þurft á hjálp að halda til að losna við martraðir sem hrjáðu hann.

Poppe getur átt yfir höfði sér allt að lífstíðarfangelsi verði hann fundinn sekur. Líknadráp á fullorðnum einstaklingum voru lögleidd í Belgíu 2002 og framdi Poppe flest morðanna eftir þann tíma. Lögin kveða hins vegar á að einnig á um að líknadráp séu ekki heimilt nema undir eftirliti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert