Aðhafðist ekkert er árásin var í gangi

Fórnarlambanna í Parkland minnst.
Fórnarlambanna í Parkland minnst. AFP

Vopnaður lögreglumaður sem hafði það hlutverk að hafa eftirlit með Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum í Flórída stóð fyrir utan skólahúsið og aðhafðist ekkert er árásin átti sér þar stað. Þetta segir lögreglustjórinn í Broward-sýslu. Lögreglumanninum var vikið frá störfum og hefur hann nú ákveðið að snúa ekki eftir til vinnu, að því er lögreglustjórinn Scott Israel segir. „Ég er eyðilagður. Mér líður illa yfir þessu. Hann fór aldrei inn,“ segir Israel.

Í fyrrakvöld lagði Donald Trump það til að kennarar sem til þess væru hæfir myndu ganga með vopn í skólanum. Þannig gætu þeir stöðvað árásir. Þetta er tillaga sem Samband skotvopnaeigenda, NRA, hefur oftsinnis lagt fram.

Israel segir að lögreglumaðurinn sem stóð vörð við skólann hafi verið vopnaður og einkennisklæddur er árásin hófst í skólanum í Parkland. Sautján lágu í valnum áður en yfir lauk.

Hann segir að á upptökum megi sjá að lögreglumaðurinn fór að byggingunni um 90 sekúndum eftir að fyrstu skotin heyrðust. Hann hafi svo staðið fyrir utan skólann í fjórar mínútur. Árásin stóð yfir í sex mínútur, að sögn Israels.

Spurður hvað lögreglumaðurinn hefði átt að gera svarar Israel: „Fara inn, mæta árásarmanninum, drepa árásarmanninn.“

Lögreglumaðurinn hefur enn ekki tjáð sig um málið opinberlega. Ekki er ljóst hvort hann eigi ákæru yfir höfði sér fyrir að bregðast embættisskyldum sínum. Israel segir að hann hafi ekki gefið haldbærar skýringar á því að hafa ekki farið inn í skólann er árásin var í gangi.

Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri Sambands skotvopnaeigenda, NRA.
Wayne LaPierre, framkvæmdastjóri Sambands skotvopnaeigenda, NRA. AFP

Ekki stendur til að birta umrætt myndband opinberlega að sögn lögreglustjórans.

Árásarmaðurinn Nikolas Cruz er nítján ára. Hann notaði AR-15, hálfsjálfvirkan riffil, við voðaverkið. Hann komst af vettvangi eftir árás sína en var handtekinn skömmu síðar.

Í ítarlegri frétt BBC um þetta mál segir að öryggisverðir við skólabyggingar séu lögreglumenn og þeir séu milli 14 og 20 þúsund að störfum við skóla í Bandaríkjunum. Lögreglumaðurinn í Parkland hafði borið ábyrgð á öryggisgæslu við framhaldsskólann frá árinu 2009.

Samtök skotvopnaeigenda segjast tilbúin að aðstoða skóla til að tryggja öryggi nemenda og starfsmanna. Samtökin segjast ekki myndu taka krónu fyrir slíka ráðgjöf. Framkvæmdastjóri samtakanna segir að í kjölfar skotárásarinnar í Parkland hafi „tækifærissinnar“ reynt að ýta á hert skotvopnaeftirlit. Þeir „hötuðu“ samtökin og „hötuðu aðra grein stjórnarskrárinnar“ þar sem kveðið er á um rétt fólks til að verjast. „Þeir hata einstaklingsfrelsið,“ sagði framkvæmdastjórinn Wayne LaPierre.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert