Ivanka Trump komin til Suður-Kóreu

Ivanka Trump mun sækja lokahátíð Vetrarólympíuleikana.
Ivanka Trump mun sækja lokahátíð Vetrarólympíuleikana. AFP

Ivanka Trump, dóttir Donalds Trumps, forseta Bandaríkjanna, og hans helsti ráðgjafi, er komin til Seúl í Suður-Kóreu þar sem hún mun vera viðstödd lokahátíð Vetrarólympíuleikanna í Pyeongchang. Háttsettur hershöfðingi frá Norður-Kóreu, Kim Yong Chol, mun einnig verða viðstaddur hátíðina. AFP-fréttastofan greinir frá.

Trump mun hafa beðið dóttur sína sína að leiða mikilvæga sendinefnd og sækja hátíðina heim. „Við erum mjög spennt að mæta á Vetrarólympíuleikana til að hvetja bandaríska liðið og til að treysta samband okkar við lýðveldi Kóreu,“ sagði hún við fréttamenn á flugvellinum skömmu eftir að hún lenti.

Norður-Kórea ætlar að senda átta manna sendinefnd á lokahátíð leikanna, en hún verður leidd af Kim Yong Chol, líkt og áður sagði. Hann hefur haft umsjón með samskiptum Norður- og Suður-Kóreu.

Yfirvöld í Seúl og Washington hafa sagt að að það verði þó engir fundir á milli Ivönku Trump og Kim Yong Chol.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert