Neyddur til að nauðga ömmu sinni

Í Bentiu í Suður-Súdan er griðarsvæði fyrir fólk á flótta …
Í Bentiu í Suður-Súdan er griðarsvæði fyrir fólk á flótta innan landsins. Þar halda nú til að minnsta kosti 115 þúsund manns. AFP

Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna telur nú næg sönnunargögn fyrir hendi til að ákæra að minnsta kosti 40 yfirmenn hersins og aðra valdamenn í Suður-Súdan fyrir stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni. 

Borgarastríð hefur geisað í Suður-Súdan í fjögur ár. Því er lýst sem sérstaklega miskunnarlausu og árásum sagt sérstaklega beint gegn óbreyttum borgurum. Enn hefur enginn verið dreginn til ábyrgðar fyrir dómstólum þrátt fyrir að Afríkuráðið (AU) hafi heitið því að koma á fót sérstökum dómstól til að rétta yfir stríðsglæpamönnum. 

„Hægt væri að koma dómstólnum á fót strax og saksóknari gæti hafið vinnu við útgáfu ákæra,“ segir Yasmin Sooka, stjórnarmaður í mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan. „Samkvæmt ákvæðum friðarsamkomulags myndu þeir sem verða ákærðir ekki lengur geta sinnt störfum sínum. Í rauninni er þetta eina leiðin til að stöðva hömlulausa tortímingu sem leiðtogar Suður-Súdan standa fyrir gegn milljónum íbúa.“

Barnungur hermaður með vopn í Yambio í Suður-Súdan. Yfir 300 …
Barnungur hermaður með vopn í Yambio í Suður-Súdan. Yfir 300 barnahermönnum, þar af 87 stúlkum, var sleppt úr haldi herja í byrjun árs samkvæmt samkomulagi sem gert hafði verið. AFP

Nefndin hefur sent yfirmanni mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, Zeid Ra'ad Al Hussein, listann yfir þá sem sannað þykir að brotið hafi af sér. Í hópnum eru m.a. ríkisstjórar og 33 hershöfðingjar.

Listinn er byggður á skýrslu sem aftur er byggð á um 58 þúsund skjölum og vitnisburðum 230 manna. Í henni er ljósi varpað á hryllinginn og hina ólýsanlegu grimmd sem viðgengst nú í þessu yngsta ríki heims. Í skýrslunni kemur m.a. fram að fólk hafi verið afhöfðað, brennt lifandi, skorið á háls, augun stungin úr því og það pyntað með öðrum hætti. 

Toppurinn á ísjakanum

Þá er kynferðisofbeldi útbreitt og margar lýsingar eru á hópnauðgunum og nauðgunum á börnum. Dæmi eru um að fólk sé neytt til að horfa á eða taka þátt í kynferðisofbeldi gegn ástvinum sínum. Í einu tilvikinu var t.d. tólf ára drengur þvingaður til að nauðga ömmu sinni. Ef hann ekki hlýddi yrði hann drepinn. Karlmenn verða einnig fyrir grófu kynferðisofbeldi. 

„Nefndin telur að tíðni kynferðisofbeldis gegn körlum í Suður-Súdan sé mun hærri en upplýsingar liggja fyrir um. Það sem við höfum séð nú þegar er aðeins toppurinn á ísjakanum,“ segir Sooka. 

Konur bíða í röðum eftir mat í flóttamannabúðum í Suður-Súdan.
Konur bíða í röðum eftir mat í flóttamannabúðum í Suður-Súdan. AFP

Starfsmenn nefndarinnar segja að ofbeldið eigi sér stað beggja vegna víglínunnar. Hermenn og hershöfðingjar herja bæði forsetans Salva Kiir og uppreisnarleiðtogans Riek Machar beri ábyrgð á glæpunum. 

Nefndin hafnar því að skýringin felist í óöguðum hermönnum og segir að röð og regla virki að öðru leyti innan herja beggja fylkinga og að skýr valdastigi sé þá til staðar. 

Við rannsókn sína einbeitti nefndin sér að því að málum þar sem finna mátti skýr dæmi þar sem kerfisbundið ofbeldi gegn almennum borgurum var fyrirskipað. 

„Það er til staðar skýrt mynstur um þjóðernisofsóknir, aðallega á meðal herja stjórnvalda, sem ætti að ákæra fyrir glæpi gegn mannkyni,“ segir Andrew Clapham, einn nefndarmanna. 

Barnahermaður í Suður-Súdan. Tugþúsundir hafa fallið í landinu frá því …
Barnahermaður í Suður-Súdan. Tugþúsundir hafa fallið í landinu frá því að borgarastríðið braust út. AFP

Dómskerfið í Suður-Súdan virkar ekki og því hefur nefndin beðið Afríkuráðið að koma á fót sérstökum dómstól líkt og gert hefur verið í Sierra Leone, Kambódíu og víðar. 

„Það eru nægar sannanir fyrir hendi til að komast að þeirri niðurstöðu að stríðandi fylkingar beina spjótum sínum sérstaklega að almennum borgurum á grundvelli uppruna þeirra og með því að drepa þá, ræna þeim, nauðga og beita öðru kynferðisofbeldi. Þessi verk eru stríðsglæpir og glæpir gegn mannkyni,“ segir í skýrslu nefndar Sameinuðu þjóðanna í Suður-Súdan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert