Vilja afnema tímamörk á setu forseta

Xi Jinping gæti verið forseti Kína um óákveðinn tíma nái …
Xi Jinping gæti verið forseti Kína um óákveðinn tíma nái tillaga Kommúnistaflokksins fram að ganga. AFP

Kommúnistaflokkurinn í Kína leggur til að afnema skuli tímamörk á setu forseta þar í landi. Gangi það eftir gæti Xi Jinping, forseti Kína og aðalritari flokksins, setið lengur en til ársins 2023.

Samkvæmt gildandi lögum má forseti aðeins sitja tvö tímabil í röð, en tímabilið er fimm ár. Xi Jinping er álitinn valdamesti leiðtogi Kína frá því að Maó Zedong var og hét. Xi hefur verið við völd frá árinu 2013 og þyrfti því að stíga til hliðar árið 2023 að öllu óbreytt. Tillagan verður lögð fyrir kínverska þingið 5. mars.

Xi Jinping tók við sem aðalritari Kommúnistaflokksins árið 2012 og hefur hann gefið sig út fyrir að berjast gegn spillingu. Í þeirri baráttu hans hefur yfir milljón manns verið refsað fyrir spillingartengt athæfi. Einhverjir sjá þó herferð forsetans einnig sem leið til þess að bola í burtu pólitískum andstæðingum.

Að því er segir í frétt AFP hefur forsetatíð Xi einkennst af endurkomu persónudýrkunar ásamt meiri háttar herferð gegn lýðræði og mannréttindum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert