Álfyrirtæki viðurkennir mengun

Norsk Hydro. Mynd úr safni.
Norsk Hydro. Mynd úr safni. AFP

Norska olíu- og álframleiðslufyrirtækið Norsk Hydro hefur viðurkennt að hafa valdið umhverfismengun þegar mengað og óhreinsað affallsvatn rann úr álverksmiðjunni Alunorte í Pará í Norður-Brasilíu. Í vatninu var meðal annars báxít sem litaði vatnið rautt.

Atvikið er rakið til 16. og 17. febrúar þegar gríðarlega miklar rigningar urðu í ná­grenni Barcar­ena iðnaðarsvæðis­ins. Í fyrstu neitaði fyrirtækið að hafa valdið menguninni þegar íbúar og stjórnvöld kvörtuðu yfir mengun á svæðinu.

„Við losuðum óhreinsað yfirborðsvatn í Pará. Þetta er algjörlega óásættanlegt og brýtur í bága við allt sem Hydro stendur fyrir. Fyrir hönd fyrirtækisins bið ég persónulega allt samfélagið og stjórnvöld afsökunar,“ segir Svein Richard Brandtzae, framkvæmdastjóri Norsk Hydro, í tilkynningu. 

Stjórnvöld í Brasilíu sektuðu Norsk Hydro um 2,5 milljónir evra eða um 300 milljónir króna. Mengunarinnar varð vart í neysluvatni og hefur áhrif á lífríki í Amazon-fljótinu. Verksmiðjan Alunorte  er ein sú stærsta í heimi.   

Árum sam­an hafa íbú­ar í ná­grenni Barcar­ena-iðnaðarsvæðis­ins kvartað yfir því að þetta ál­ver og aðrar verk­smiðjur á svæðinu mengi neyslu­vatn þeirra.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert