Vill ræða við alla um stjórnarmyndun

Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands.
Frá Nuuk, höfuðstað Grænlands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Formaður jafnaðarflokksins Siumut á Grænlandi, sem fékk flest atkvæði í þingkosningunum sem fram fóru í landinu í gær, Kim Kielsen, hefur lýst því yfir að hann sé reiðubúinn að ræða um stjórnarmyndun við alla aðra flokka sem fengu þingmenn kjörna.

Kim hefur verið forsætisráðherra Grænlands í samstarfi við vinstriflokkinn Inuit Ataqatigiit og miðjuflokkinn Partii Naleraq. Bæði Siumut og Inuit Ataqatigiit töpuðu fylgi, eða 7,1 prósentustigi og 7,6 prósentustigum, en Partii Naleraq bætti aðeins við sig.

Siumut er áfram stærsti flokkurinn með 27,2%, Inuit Ataqatigiit kemur næstur með 25,5% og miðjuflokkurinn Demókratar eru í þriðja sæti með 19,5%. Partii Naleraq hlaut 13,4% atkvæða, hægriflokkurinn Atassut 5,9%, Samvinnuflokkurinn 4,1% og Nunatta Qitornai 3,4%.

Tveir síðustu flokkarnir hafa ekki áður boðið fram í Grænlandi. Fjallað er um niðurstöður kosninganna á fréttavef grænlenska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert