Maduro fagnar sigri

Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, fór með sigur af hólmi í forsetakosningum í landinu í gær. Úrslitin komu ekki á óvart þar sem andstæðingar hans báðu fólk um að sniðganga kosningarnar og krefjast nýrra kosninga síðar á árinu.

Venesúela er á barmi gjaldþrots og staða almennings skelfileg.  Ofurverðbólga, matar og lyfjaskortur, aukin glæpatíðni og skortur á vatni og rafmagni er meðal þess sem blasir við íbúum Venesúela. Hundruð þúsunda íbúa Venesúela hafa flúið land á undanförnum árum.

Madura er fyrrverandi strætisvagnastjóri og starfaði í verkalýðshreyfingunni áður en hann var valinn til að taka við stjórn landsins eftir að lærimeistari hans, sósíalistinn Hugo Chavez, lést fyrir fimm árum. Maduro er sakaður um að stýra landinu í átt að einræði til að halda völdunum og koma í veg fyrir að andstæðingar hans bindi enda á sósíalísku „byltinguna“ sem Chavez hóf á valdatíma sínum á árunum 1999 til 2013. 

Kjörsókn var aðeins 46% í gær en niðurstaða kosninganna er að Maduro verður forseti Venesúela til ársins 2025.

Hann helsti andstæðingur, Henri Falcon, segir að stjórnarandstaðan taki ekki mark á niðurstöðunni. „Fyrir okkur voru engar kosningar. Við þurfum á nýjum kosningum að halda í Venesúela.

Maduro fagnaði sigrinum ákaft með stuðningsmönnum sínum fyrir utan forsetahöllina í Caracas í gærkvöldi. Hann segir að aldrei áður hafi forsetaframbjóðandi unnið slíkar sigur í landinu en hann fékk 68% atkvæða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert