Tilkynntar til yfirvalda vegna skróps

Fjölskyldurnar fengu að halda ferðalaginu áfram en mega búast við …
Fjölskyldurnar fengu að halda ferðalaginu áfram en mega búast við háum sektum. AFP

Lögreglan í Þýskalandi hefur tilkynnt tíu þýskar fjölskyldur til skólayfirvalda í landinu eftir að þær voru stöðvaðar á flugvellinum í Memmingen. Að sögn BBC er ástæðan er sú að fjölskyldurnar voru á leið úr landi með börn sem hefðu átt að vera í skólanum.

Talið er að fjölskyldurnar hafi verið að reyna að forðast ferðalög á háannatíma, þegar fargjöld geta verið margfalt dýrari. Fjölskyldurnar geta nú átt von á háum sektum sem geta numið allt að 1.000 evrum, eða um 123.000 krónum.

Í Þýskalandi ber foreldrum lagaleg skylda til þess að senda börn sín í skóla.

Fjölskyldunum sem stöðvaðar voru í Memmingen var þó ekki meinað að fara í sumarfríin sín. Að sögn lögreglunnar hefði verið óréttlátt að senda börnin aftur í skólann þar sem fjölskyldurnar höfðu þegar greitt fyrir ferðalögin.

Fjölskyldurnar hafa nú tvær vikur til þess að útskýra mál sitt, en séu skýringarnar á fjarveru barnanna frá skólanum ekki nægilega góðar eiga þær von á háum sektum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert