Króuðu árásarmanninn af

Henry Trochesset er lögreglustjóri í Galveston-sýslu.
Henry Trochesset er lögreglustjóri í Galveston-sýslu. AFP

„Hetjur“ inni í byggingu Santa Fe-framhaldsskólans í Texas króuðu byssumanninn af innan fjögurra mínútna eftir að hann hóf skotárás sína á föstudagsmorgun. Þar var honum haldið þar til lögregla mætti á vettvang og hóf að rýma skólann. Þetta segir lögreglustjórinn í Galveston-sýslu.

Lögreglustjórinn Henry Trochesset greindi frá atburðarásinni á blaðamannafundi í gærkvöldi. „Hetjurnar [í skólanum] náðu til þessa einstaklings á um það bil fjórum mínútum og héldu til hliðar svo að aðrar hetjur, sem streymdu á vettvang, gætu komið kennurum og nemendum út úr skólanum.“

Barnabarn í skólanum er árásin var gerð

Trochesset sagði frá því á fundinum að börn hans og barnabörn væru nemendur í skólanum og að eiginkona hans sé fyrrverandi nemandi skólans. „Barnabarnið mitt var í skólastofu rétt hjá þar sem þetta gerðist. Besta vinkona hennar sem hefur gist á heimili okkar og synt í sundlauginni minni er látin.“ 

Lögreglustjórinn segir að starfsmönnum skólans hafi tekist að loka árásarmanninn inni í herbergi. Hann var spurður hvort að einhver hinna tíu sem féllu í árásinni  hefðu orðið fyrir skotum lögreglu og sagðist hann ekki vita til þess. Hann héldi ekki en rannsókn á þeim þætti málsins væri ekki lokið.

Árásarmaðurinn Dimitrios Pagourtzis er sautján ára og er sjálfur nemandi í skólanum. Hann skaut á fólk í tveimur kennslustofum áður en hann var króaður af. Tíu féllu eins og fyrr segir og þrettán særðust.

Frétt ABC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert