Hylkin sprungu og maðurinn lést

Kókaín. Myndin er úr safni.
Kókaín. Myndin er úr safni. AFP

Ungur brasilískur karlmaður, sem hafði gleypt 113 hylki með kókaíni, lést um borð í flugvél á leið til Dublin. John Gurgao hafði gleypt hylkin rétt áður en hann steig um borð í vél Aer Lingus í Lissabon.

Í frétt Irish Times  um málið segir að Gurgao hafi verið 24 ára. Hann var með tæpt kíló af kókaíni innvortis. Umbúðirnar rifnuðu utan af að minnsta kosti einu hylkinu með þeim afleiðingum að hann lést. Meinafræðingur segir að magn eiturlyfsins í blóði hans hafi verið mjög hátt eða fjórum sinnum meira en fannst að meðaltali í líkama 37 annarra einstaklinga sem létust úr ofskömmtun kókaíns.

Kona sem hitti Gurgao á flugvellinum í Lissabon segir að hann hafi þá verið mjög sveittur og órólegur. Hún segist, í samtali við The Irish Times, hafa haldið að það væri út af því að vegabréfsáritun hans var að renna út og að hann var í flýti að reyna að komast til Dublin til að geta haldið þar áfram námi.

Flugfreyja sem var um borð í vélinni segir að um 45 mínútum eftir flugtak hafi maðurinn farið að láta undarlega. Hann hafi klifrað yfir sæti vélarinnar, staðið í fangi annarra farþega, og reynt að koma sér inn á salerni í vélinni. Hún segist hafa beðið hann að láta af þessari hegðun en að hann hafi látið sem hann heyrði ekki það sem hún sagði. Hún lét þá flugstjórann vita. Gurgao hafi farið inn á salernið og síðar komið út og verið í miklu uppnámi og hrópað á portúgölsku. Hann hafi tekið töflur upp úr tösku sinni og reynt að henda þeim.

Stuttu síðar fékk hann flog og komu tveir hjúkrunarfræðingar og læknir, sem voru meðal farþega, til aðstoðar. Hann missti meðvitund og var honum gefið súrefni. Er hann komst til meðvitundar beit hann farþega í handlegginn og varð áhöfnin að handjárna hann. Gurgao fékk svo annað flog og skiptust hjúkrunarfræðingarnir og læknirinn í kjölfarið á að reyna að endurlífga hann í fjörutíu mínútur. Vélinni var lent á Cork-flugvelli en skömmu eftir lendingu var maðurinn úrskurðaður látinn.

Við krufningu kom í ljós að Gurgao var með 113 hylki af kókaíni innvortis eða samtals 961 gramm af kókaíni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert