Flugmaður í glasi á Gardermoen

Farþegaþota frá hollenska flugfélaginu KLM. Mynd úr safni.
Farþegaþota frá hollenska flugfélaginu KLM. Mynd úr safni. AFP

Það var á tíunda tímanum á föstudagsmorguninn að norskum tíma, þeim áttunda að íslenskum, sem lögreglan á Gardermoen-flugvellinum norðaustur af Ósló í Noregi tók sínar vanabundnu stikkprufur á ástandi flugmanna sem um völlinn fara í farþega- og vöruflutningaflugi. Klukkan 09:38 (07:38 á Íslandi) tóku þeir sýni af aðstoðarflugmanni hollenska flugfélagsins KLM sem gaf til kynna að hann væri ekki með öllu allsgáður.

„Ég get staðfest að við framkvæmdum tilviljunarkennda úrtaksprufu á flugmanni á Gardermoen-flugvellinum,“ segir Kari Monsen hjá austurumdæmi norsku lögreglunnar við norska dagblaðið VG.

Monsen kýs að fara sem minnst út í smáatriðin en lætur þó uppi að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald yfir manninum sem eigi yfir höfði sér ákæru fyrir að vera ölvaður í almannaþjónustu.

Enn fremur neitar Monsen að fara nokkuð út í hvaða skýringar Hollendingurinn fljúgandi, sem er á fertugsaldri, gaf á ölvun sinni en hann mun þó hafa tjáð sig um það við fyrstu yfirheyrslu.

Flugþjónustufyrirtækið Avinor, sem er sambærilegt við Isavia á Íslandi, neitar alfarið að tjá sig um málið og segir upplýsingafulltrúi þess, Joachim Westher Andersen, að hann viti ekkert um hvað er rætt.

Norsku fjölmiðlarnir Aftenposten og Romerikes Blad greina einnig frá málinu en VG hefur enn fremur sent frá sér nýrri frétt þar sem frá því er greint að flugmaðurinn hafi verið úrskurðaður í 14 daga gæsluvarðhald í Noregi í gær. Þess sé nú beðið að niðurstöður blóðprufu skili sér og muni málið þá þegar verða sent ákæruvaldinu til meðferðar. Þetta er hvorki í fyrsta né annað sinn sem ölvunarmál stjórnenda flugfara koma upp á Gardermoen en í ágúst 2015 var öll áhöfn lettnesks leiguflugfélags, flugstjóri, flugmaður og tvær flugfreyjur, tekin fyrir ölvun rétt áður en hún náði að fara í loftið með fulla vél af Norðmönnum sem ætluðu að sleikja sólina á Krít.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert