Fimm látnir eftir jarðskjálfta í Japan

Fimm manns eru látnir eftir að hafa orðið undir í …
Fimm manns eru látnir eftir að hafa orðið undir í skjálftunum. Ljósmynd/AFP

Alls eru fimm manns látnir og tæplega fjögur hundruð slasaðir eftir öflugan jarðskjálfta og eftirskjálfta sem skóku borgina Osaka í Japan á mánudagskvöld segja yfirvöld í Japan.

Sagt hefur verið frá því að maður á sjötugsaldri og kona á áttræðisaldri hafi fundist látin á heimilum sínum. Áður hafði verið greint frá því að þrír hefðu látist í kjölfar jarðskjálftanna, þar á meðal níu ára stúlka sem varð undir vegg á leið sinni í skóla í kjölfar eftirskjálfta. 

 „Yfirvöld munu halda björgunarstarfi áfram,“ sagði Yoshihide Suga, talsmaður ríkisstjórnar Japan, en bætti við að ekki hefðu borist tilkynningar um týnt fólk. Einnig er unnið að því að koma hita- og gasveitu af stað á ný. Rafmagnslaust var víða eftir skjálftana en búið er að leysa úr því.

Yfirvöld í Japan hafa varað við skriðuföllum á svæðinu enda möguleiki að skjálftarnir hafi losað um jarðveg sem geti farið af stað í rigningunni sem spáð er á næstu dögum. Þá hafa yfirvöld einnig varað við því að búast megi við öflugum eftirskjálftum næstu daga.

Um það bil 1.700 manns dvelja nú í bráðabirgðaskýlum.

Fólk bíður í röð eftir aðgangi að drykkjarvatni.
Fólk bíður í röð eftir aðgangi að drykkjarvatni. Ljósmynd/AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert