Deilt um vélmennavöktun á Evrópuþingi

Tillögurnar njóta stuðnings EPP, bandalags hægri manna, auk þjóðernissinna og …
Tillögurnar njóta stuðnings EPP, bandalags hægri manna, auk þjóðernissinna og Evrópuandstæðinga. Jafnaðarmenn, græningjar og Píratar leggjast gegn þeim, en þingmenn ALDE, bandalags frjálslyndra, eru blendnir í trúnni. AFP

Breytingar á höfundarréttarlöggjöf Evrópusambandsins eru til umræðu í Evrópuþinginu. Frumvarp sem byggir á stefnu ESB um stafrænan innri markað sambandsins var samþykkt í lögfræðinefnd Evrópuþingsins í dag, en þar er meðal annars er stefnt að því að „minnka mismun á höfundarréttarlöggjöf milli aðildarríkja“. Auk þess eru í frumvarpinu umbætur í átt að því að leyfa notkun höfundarréttarvarins efnis þvert á landamæri ESB-ríkja.

Tvær greinar frumvarpsins, númer ellefu og þrettán, hafa helst vakið athygli. 

Frumvarpið var samþykkt í lögfræðinefnd Evrópuþingsins í gær. Ellefta greinin með minnsta mögulega meirihluta, 13 gegn 12, en hin þrettánda með 15 atkvæðum gegn 10. Þingmenn EPP, bandalags hægrimanna, kusu með tillögunni en hún naut einnig stuðnings nefndarmanna ALDE, bandalags frjálslyndra, og ENF, sem eru þjóðernissinnaðir Evrópuandstæðingar. Jafnaðarmenn, græningjar og Píratar lögðust gegn tillögunni. Frumvarpið fer nú til Evrópuþingsins og er búist við að það verði tekið til umræðu 4. júlí.

Hlekkjaskatturinn

Elleftu grein frumvarpsins er ætlað að útvíkka lagarammann sem verndar hugverk fyrir fréttamiðlum. Ef af lagasetningunni verður, mun þurfa leyfi fyrir notkun smámyndar eða textabúts með fyrirsögn. Lagasetningunni er beint að Google og Facebook, sem fá til sín mikla netumferð með hlekkjum á fréttir annarra án endurgjalds, en hefði áhrif á mun fleiri: samfélagsmiðla á borð við Reddit, bloggara, fréttaveitur o.fl.

Gagnrýnendur tillögunnar, til að mynda Píratar á Evrópuþinginu, hafa nefnt hana hlekkjaskattinn, Link Tax, og sagt að í tillögunni felist algjört skilningsleysi á notkun netsins auk þess sem því kunni að fylgja óhófleg ritskoðun. Hún kunni að leiða til þess að lokað verði á vefsíður á borð við Reddit, sem er í raun ekkert annað en vettvangur til að deila efni annars staðar að á netinu, í Evrópu.

Vélmenni vakti netið

Þrettánda grein frumvarpsins setur auknar skyldur á herðar vefsíðna sem búa yfir „miklu magni“ efnis sem hlaðið er upp af notendum. Skulu þær nota tæknina til þess að koma í veg fyrir höfundarréttarbrot. Þessi grein hefði einkum áhrif á samfélagsmiðla, en miðað við umfang þess efnis sem hlaðið er á miðlana er ljóst að slíkri lagasetningu yrði aldrei framfylgt nema með sjálfvirkum síum sem myndu leita uppi höfundarréttarvarið efni. Slíkar síur ættu að vera notendum Youtube að góðu kunnar. Reyni notendur til að mynda að hala upp myndbandi á þá síðu sem inniheldur lagstúf eru síur fyrirtækisins fljótar að þefa það uppi og taka myndbandið úr umferð.

AFP

Jim Killock, framkvæmdastjóri Open Rights Group sem berst fyrir netfrelsi í Bretlandi, segir í samtali við BBC: „13. greinin mun skapa véllögregluríki, þar sem vélmenni loka fyrir allt sem þau telja að brjóti höfundarréttarreglur, þrátt fyrir að í gildi séu lög sem banni alhliða vöktun á notendum, friðhelgi þeirra til verndar.“

70 áhrifavaldar í tækniheiminum skrifuðu í síðustu viku opið bréf til Antonio Tajani, forseta Evrópuþingsins og þingmanns EPP, þar sem þeir segja tillöguna, einkum þrettándu greinina, vera „ógn við framtíð netsins“. Meðal þeirra sem skrifa undir bréfið er Jimmy Wales, stofnandi frjálsu alfræðiorðabókarinnar Wikipedia.

Í opna bréfinu segja tæknifrumkvöðlarnir að frumvarpið muni bitna helst á evrópskum nýsköpunarfyrirtækjum enda sé kostnaðurinn við að koma slíkum síum á koppinn mikill.

Þrátt fyrir að vera beint að stórfyrirtækjum á borð við Google kann lagasetningin að koma fyrirtækinu til góðs. Fáar efnisveitur hafa nefnilega úr jafngóðum síum að spila og Google, sem einmitt á Youtube. Ætli vefsíður að framfylgja greininni gætu þær því þurft að kaupa sér þjónustu Google eða annarra fyrirtækja sem búa yfir öflugum síum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert