John Oliver bannaður í Kína

John Oliver er nú bannaður í Kína.
John Oliver er nú bannaður í Kína. AFP

Breski sjónvarpsmaðurinn John Oliver hefur nú verið þurrkaður út af kínverskum samfélagsmiðlum eftir að hafa farið heldur hörðum orðum um Xi Jinping, forseta kínverska lýðveldisins.

Í síðasta þætti Oliver af „Last Week Tonight,“ sem sýndur er á HBO sjónvarpsstöðinni, fer hann yfir þau vandamál sem Kína stendur frammi fyrir á sviðum stjórnmála, viðskipta og mannréttinda. Í kjölfarið var Oliver eytt útaf stærsta samfélagsmiðli Kína, Weibo og er nú ómögulegt að setja inn færslur þar sem hann er nefndur á nafn.

Samkvæmt vef BBC kemur upp gluggi sem segir að færslan brjóti „mikilvæg lög og reglugerðir“ þegar tilraunir eru gerðar til að nefna Oliver á nafn á miðlinum.

Í þættinum umtalaða fór Oliver yfir málefni sem þykja einkar umdeild í Kína. Hann minnist á að Xi forseti hafi núna svigrúm til þess að sitja við valdastólinn það sem hann á eftir ólifað, en öll gagnrýni á þá ákvörðun var umsvifalaust stöðvuð við fæðingu fyrr á árinu. Oliver gagnrýndi sömuleiðis illa meðferð kínverskra stjórnvalda á Úígúrum, sem er íslamskur minnihlutahópur í Kína og nóbelsverðlaunahafanum Liu Xiaobo, sem er sagður vera glæpamaður af kínverskum stjórnvöldum. Færslur um Liu á samfélagsmiðlum eru einnig bannaðar í Kína.

Það er ekki óalgengt í Kína að nöfn, skilgreiningar og frasar séu bannaðar á samfélagsmiðlum. Margar milljónir starfa eingöngu við það að fylgjast með netvirkni kínverskra borgara og færslum sem þykja ekki við hæfi samkvæmt kínverskum stjórnvöldum er ítrekað eytt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert