Rannsaka fagnaðarlæti Svisslendinga

Shaqiri hlaut gula spjaldið fyrir að klæða sig úr treyjunni …
Shaqiri hlaut gula spjaldið fyrir að klæða sig úr treyjunni í fagnaðarlátunum. AFP

Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA hefur sett af stað rannsókn á því hvernig svissnesku leikmennirnir Granit Xhaka og Xherdan Shaqiri fögnuðu mörkum sínum í 2-1 sigri Sviss á Serbíu á föstudag.

Athygli vakti að leikmennirnir fögnuðu með svokölluðum „tvöföldum erni“, sem mun vísa til fána Albaníu, en báðir rekja þeir rætur til Kósovó þar sem Albanir eru í þjóðfræðilegum meirihluta.

Kósovó var áður hérað í Serbíu en lýsti yfir sjálfstæði árið 2008, tæpum áratug eftir blóðugt stríð albanskra skæruliða og herliðs Serba. Stjórnvöld í Belgrad, höfuðborg Serbíu, neita enn að viðurkenna sjálfstæði landsins.

Svo ber undir að FIFA leggur bann við öllum pólitískum skilaboðum eða táknum á leikvöngum heimsmeistaramótsins. Xhaka og Shaqiri gætu því þurft að þola allt að tveggja leikja bann verði þeir fundnir sekir um að hafa brotið gegn þessari reglu sambandsins.

Dómarinn verði sendur til Haag

Svisslendingarnir eru þó ekki þeir einu sem nú sæta rannsókn, heldur hefur knattspyrnusambandið einnig sagst munu kanna ummæli sem þjálfari Serbíu, Mladen Krstajic, á að hafa látið falla í kjölfar leiksins.

Krstajic mun þá hafa kallað eftir því að dómari leiksins, hinn þýski Felix Brych, verði látinn undirgangast réttarhöld hjá Stríðsglæpadómstólnum í Haag. Meintur glæpur Þjóðverjans er sagður hafa verið að dæma ekki vítaspyrnu, Serbíu í vil.

Serbneska liðið brást enda illa við þegar Brych veitti þeim ekki vítaspyrnu á 66. mínútu leiksins, í kjölfar þess að Aleksandar Mitrovic endaði í grasinu eftir átök við varnarmennina Stephan Lichtsteiner og Fabian Schaer.

„Við vorum rændir,“ sagði þjálfarinn við blaðamenn fyrr í dag, spurður um ákvörðun dómarans.

„Ég myndi ekki gefa honum gula eða rauða spjaldið, ég myndi senda hann beint til Haag. Þá gætu þeir réttað yfir honum, eins og þeir réttuðu yfir okkur.“

Kósovó-Albani fylgist með knattspyrnuleik í heimalandi sínu. Mikil spenna hefur …
Kósovó-Albani fylgist með knattspyrnuleik í heimalandi sínu. Mikil spenna hefur myndast þar í landi fyrir heimsmeistaramótinu, þar sem margir styðja þá Shaqiri og Xhaka til afreka. AFP

„Vorum að leika gegn Sviss, ekki Kósovó“

Serbneskir fjölmiðlar fullyrða að fögnuðir Svisslendingana hafi falið í sér „svívirðilega ögrun“. Shaqiri sagði eftir leikinn að fögnuður sinn hafi aðeins verið hreinar tilfinningar að brjótast í gegn, en bætti við að honum væri ekki heimilt að tjá sig um pólitík.

Þjálfara hans, Vladimir Petkovic, virtist ekki skemmt. „Þú ættir aldrei að blanda saman pólitík og fótbolta,“ sagði Petkovic.

Serbneska knattspyrnusambandið hafði einnig lagt inn kvörtun til FIFA fyrir leikinn, vegna fána Kósovó sem prýddi annan skó Shaqiri.

„Við sóttumst eftir því að hann skipti um skó. Þetta var ögrun, við vorum að leika gegn Sviss, ekki Kósovó,“ segir talsmaður liðsins, Jovan Surbatovic, í samtali við ríkissjónvarpsstöð Serbíu, RTS.

Fáni Albaníu. Svartur tvíhöfða örn á rauðum grunni.
Fáni Albaníu. Svartur tvíhöfða örn á rauðum grunni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert