Bátur fórst í skyndilegu óveðri

Björgunarmenn að störfum á Table Rock-vatni í gærkvöldi.
Björgunarmenn að störfum á Table Rock-vatni í gærkvöldi. AFP

Ferðamannabát hvolfdi á stöðuvatni í Missouri í gær með þeim afleiðingum að í það minnsta ellefu manns drukknuðu. Vonskuveður var á vatninu er slysið átti sér stað. 

Þrumuveður var á Table Rock-vatni í gær. Sjö voru fluttir á sjúkrahús og að minnsta kosti fimm er enn saknað eftir slysið. Lögreglan segir að meðal hinna látnu séu börn. Tveir af þeim sem fluttir voru á sjúkrahús eru í lífshættu. Lögreglan segir að nokkrir sem voru um borð í bátnum hafi komist heilir á húfi í land.

Kafarar taka þátt í leit og björgun en henni var hætt um klukkan 11 í gærkvöldi að staðartíma, um fjögur í nótt að íslenskum tíma. Verður henni framhaldið í dag.

Í bátnum, sem er hjólabátur og getur bæði siglt og ekið á landi, var 31 maður. Lögreglan segir að mikill vindur hafi verið á vatninu í gær og hafi báturinn verið á leið til lands er hann hvolfdi.

Table Rock-vatn er manngert stöðuvatn og vinsæll viðkomustaður ferðamanna í suðurhluta Missouri.

Rick Kettels, sem á hótel við vatnið, segir að óveðrið hafi skollið á með engum fyrirvara. „Þetta gerðist mjög hratt,“ segir hann. „Ég hef búið hér stærstan hluta ævi minnar og ég hef aldrei séð svona slæmt veður.“ Hann segist ekki hafa séð viðvaranir frá veðurstofunni. Er hann sá í hvað stefndi hafi hann farið niður að vatninu og hvatt gesti til að koma sér í skjól. 

 Kettels segir að óveðrið hafi skollið á rúmlega sex í gærkvöldi en veðurstofan segist ekki hafa gefið út viðvaranir fyrr en klukkan 6.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert