Fleiri eldri borgarar nota kannabis

Notkun kannabis meðal bandarískra eldri borgara verður nú sífellt algengari. Mest er hún í Kaliforníuríki. 

Á meðfylgjandi myndbandi frá AFP-fréttastofunni er viðtal við 87 ára gamla konu sem situr í hægindum sínum fyrir framan sjónvarpið og reykir marijúana. Bryna Nalibow á erfitt með svefn og þjáist einnig af miklum verkjum. „Verkirnir voru svo miklir að ég ákvað að prófa þetta og eftir nokkra mánuði gat ég hætt að nota verkjalyfið.“

Bryna notar rafrettu við reykingarnar, líkt og margir jafnaldrar hennar, og segist sofa betur í kjölfarið. Hún er nú orðið andlit herferðar sem miðar að því að fræða eldri borgara um ágæti virka efnisins í kannabis sem margir líta á sem valkost við verkjalyf. Kandice Hawes-Lopes, sem fer fyrir fræðsluverkefni fyrir eldri borgara um kannabis, segir að eldri borgarar vilji ekki komast í vímu með því að nota efnið heldur aðeins njóta heilsubætandi eiginleika þess. 

Talið er að um 3% Bandaríkjamanna 65 ára og eldri noti kannabis. Þó að hlutfallið sé ekki hátt nota tuttugu sinnum fleiri í þessum aldurshópi kannabis nú en fyrir þrjátíu árum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert