Fangelsi fyrir fóstureyðingu eftir nauðgun

Lögregluyfirvöld í Indónesíu rannsaka nú þátt móðurinnar í fóstureyðingunni.
Lögregluyfirvöld í Indónesíu rannsaka nú þátt móðurinnar í fóstureyðingunni. AFP

Fimmtán ára indónesísk stúlka var í síðustu viku dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa farið í fóstureyðingu eftir að bróðir hennar nauðgaði henni ítrekað.

Bróðir stúlkunnar, sem er tveimur árum eldri, fékk tveggja ára fangelsisdóm fyrir kynferðisofbeldi gegn ósjálfráða einstaklingi. Drengurinn nauðgaði systur sinni alls átta sinnum á síðasta ári.

Krafa saksóknara var upphaflega sú að stúlkan yrði dæmd í eins árs fangelsi, en stúlkan fór í fóstureyðingu sex mánuðum eftir að hún varð ólétt. Þá var sóst eftir því að bróðir hennar fengi sjö ára fangelsisdóm.

Systkinin munu bæði taka út dóm sinn í endurhæfingarstofnun fyrir ungmenni samkvæmt Listyo Arif Budiman, einum dómaranna í málinu. Þar munu þau fá starfsþjálfun sem á að hjálpa þeim að aðlagast samfélaginu að nýju.

Samkvæmt Budiman fundu nágrannar systkinanna fóstrið og tilkynntu það strax til lögreglu sem hóf þá þegar rannsókn á málinu. Stúlkan viðurkenndi strax að hafa eytt fóstrinu eftir því sem fram kemur á vef CNN. Lögregluyfirvöld rannsaka nú þátt móður systkinanna í fóstureyðingunni.

Fóstureyðingar eru ólöglegar og refsiverðar í Indónesíu en þrátt fyrir það segja starfsreglur dómara til um að tekið sé sérstakt tillit til mála sem sérstaklega snúa að kynferðisofbeldi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert