Hitamet falla í Japan

Hiti hefur farið yfir 40 gráður í tólf borgum í …
Hiti hefur farið yfir 40 gráður í tólf borgum í Japan í dag. AFP

Það er ekki aðeins í Evrópu sem hitabylgja gengur yfir. Banvæn hitabylgja hefur gengið yfir Japan síðustu daga og er talið að á bilinu 15-40 manns hafi látist í landinu og yfir 10.000 manns hafa þurft að leita á spítala vegna hitanna.

Hitametið í landinu féll fyrr í dag þegar 41,1 gráðu hiti mældist í Kumagaya, um 70 kílómetra norðvestur af Tókýó. Fyrra met var 41,0 gráður frá árinu 2013. Hiti hefur í dag mælst yfir 40 gráðum í á öðrum tug borg.

Almannavarnir Japans hafa brýnt fyrir landsmönnum að halda sig innandyra í loftkældum rýmum, drekka vatn og hvílast til að koma í veg fyrir að örmagnast af hita.

„Fólk á svæðum þar sem hiti hefur náð 35 gráðum eða meira ætti að vera einstaklega varkárt,“ segir veðurfræðingur á veðurstofu í Japan í samtali við fréttaveituna AFP.

Í borginni Yokohama, sunnan af Tókýó, safnaðist fólk saman á viðburð sem nefnist uchimizu eða vatnsathöfn þar sem köldu vatni er hellt eða úðað á heita gangstéttina til að kæla hana.

Uchimizu-hefðin er fyrst og fremst praktísk.
Uchimizu-hefðin er fyrst og fremst praktísk. AFP

 

Yuriko Koike, borgarstjóri Tókýó, hefur sagt að hitinn í borginni sé svo mikill að það sé eins og að „búa í sánu“ að dvelja í borginni.

Hitabylgjan hefur vakið upp áhyggjur sumra af Ólympíuleikunum árið 2020 sem fara fram í höfuðborginni. Skipuleggjendur leikanna og borgarstjórn Tókýó hafa rætt sín á milli um aðgerðir til að ráða við hitann, allt frá sólarhindrandi málningu til flókinna þokustöðva sem eiga að halda hitanum í skefjum.

„Aðgerðir til að verjast hitanum eru meðal þeirra mikilvægustu til að tryggja vel heppnaða Ólympíuleika árið 2020,“ sagði borgarstjórinn á blaðamannafundi á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert