Pissa fyrir allra augum á bökkum Signu

Það er ekki amalegt að hafa þetta útsýni við að …
Það er ekki amalegt að hafa þetta útsýni við að kasta af sér þvagi. AFP

Pissuskálar sem settar hafa verið upp víða um París hafa vakið mikla reiði íbúa sem eru sannfærðir um að þær spilli upplifun fólks af borginni. Það sem gerir pissuskálarnar sérstakar eru að þær eru ekki fyrir luktum dyrum. Um er að ræða rauða, frekar áberandi kassa sem eiga að vera mjög umhverfisvænir, þar sem karlmenn geta kastað af sér þvagi fyrir allra augum. BBC greinir frá.

Pissuskálarnar, sem eru fylltar með hálmi og eiga að vera lyktarlausar, voru settar upp til að reyna að sporna við því að menn pissi á göturnar, sem hefur verið ákveðið vandamál í borginni. Reiðir íbúar telja þetta hins vegar ekki lausnina og til stendur að hefja undirskriftasöfnun til að fá skálarnar fjarlægðar.

Pissuskálarnar eiga að sporna við því að karlmenn pissi á …
Pissuskálarnar eiga að sporna við því að karlmenn pissi á götur Parísar, sem virðist hafa verið vandamál. AFP

Ein pissuskálin er staðsett rétt hjá Notre Dame-kirkjunni og snýr út að ánni Signu þar sem ferðamenn geta fylgst með mönnum pissa á útsýnissiglingu um borgina. Sá sem pissar getur að sama skapi notið útsýnis yfir ána. Staðsetning þessarar pissuskálar hefur verið sérstaklega gagnrýnd.

„Það er alls ekki nauðsynlegt að stilla svona ósæmilegum og ljótum hlut upp á þessum sögulega stað. Þetta er við hliðina á einu fallegasta húsi borgarinnar, Hotel de Lauzun,“ segir Paola Pellizzari, sem rekur listagallerí í hverfinu. Hún óttast að uppsetning pissuskálanna muni ýta undir strípihneigð karlmanna.

Skálarnar hafa vakið upp mikla reiði Parísarbúa, sem segja þær …
Skálarnar hafa vakið upp mikla reiði Parísarbúa, sem segja þær skemma upplifun fólks af borginni. AFP

„Þetta er skelfilegt,“ segir annar íbúi. „Okkur er sagt að við verðum að sætta okkur við þetta, en þetta er algjörlega óásættanlegt. Getur fólk ekki bara hagað sér betur?“

Þá hefur verið gagnrýnt að aðeins hafi verið settar upp pissuskálar fyrir karlmenn. Ekki hafi verið gert ráð fyrir því að konur geti þurft að pissa á ferðum sínum um borgina. Einhverjir hafa líka gagnrýnt aðrir þurfi að aðlaga sig að því að menn geti ekki hagað sér sem skyldi.

Borgaryfirvöld hafa svarað gagnrýninni og segja þetta nauðsynlega aðgerð. Sé ekkert gert þá pissi karlmenn bara á götunar, sem sé ekki skárra. Það er þó til skoðunar að færa til skálarnar sem vakið hafa upp hvað mesta reiði.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert