Kylfingur myrtur í Iowa

AFP

Spænski kylfingurinn Celia Barquín fannst látin á golfvelli í Iowa í Bandaríkjunum. Að sögn yfirvalda er búið að handtaka og ákæra mann sem er grunaður um að hafa orðið henni að bana.

Barquín, sem var 22 ára gömul, vann í júlí Evrópumót áhugakylfinga í kvennaflokki. Hún stundaði nám við háskólann í Iowa, að því er fram kemur á vef BBC.

Kylfingar sem voru að spila á Coldwater Golf Links-vellinum í Ames fundu kylfupoka Barquín á vellinum snemma í gærmorgun. Lögreglumenn, sem voru kallaðir á staðinn, komu svo að líki hennar skammt frá. 

Lögreglan í Ames segir að Barquin hafi látist í kjölfar árásar. 

Fram kemur á vef BBC, að lögreglan hafi ákært 22 ára gamlan karlmann, Collin Daniel Richards, fyrir manndráp. Að sögn lögreglu er Richards hvergi skráður til heimilis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert