Vara við skilaboðaleka á Twitter

Samskiptaforritið Twitter er með um 335 milljónir virkra notenda.
Samskiptaforritið Twitter er með um 335 milljónir virkra notenda. AFP

Samskiptaforritið Twitter hefur tilkynnt ótilgreindum fjölda notenda sinna að einkaskilaboðum þeirra kunni að hafa verið lekið til þriðja aðila á yfir árs tímabili. BBC greinir frá.

„Hugbúnaðarpaddan“, sem hefur nú verið löguð, hafði áhrif á einkaskilaboð milli notenda og fyrirtækja sem bjóða notendaaðstoð í gegnum Twitter. Upp komst um vandann 10. september en hefur hann staðið yfir síðan í maí á síðasta ári að sögn talsmanns Twitter.

Notendur sem urðu fyrir biluninni eru nú látnir vita í gegnum skilaboð sem birtast þegar þeir opna Twitter-aðgang sinn.

Fyrirtækið sagði ekki nákvæmlega til um hve mörgum notendum þeir hefðu tilkynnt um bilunina, en í yfirlýsingu sagði að það teldi innan við 1% notenda forritsins. Twitter er með 335 milljónir virkra notenda samkvæmt nýjustu tölum fyrirtækisins sem birtar voru í júlí.

Í yfirlýsingunni sagði jafnframt að ekki væru öll bein skilaboð milli einstaklinga í lekahættu heldur aðeins skilaboð milli einstaklinga og fyrirtækja.

„Við höfum ekki enn fundið tilvik þar sem upplýsingar hafa verið sendar til rangs aðila, en við getum ekki staðfest að svo hafi ekki verið. Svo við segjum þeim notendum frá vírusnum sem hafa mögulega orðið fyrir honum,“ segja talsmenn Twitter sem segjast jafnframt harma atvikið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert