Felldu tillögur um sjálfbær matvæli

AFP

Svissneskir kjósendur hafa hafnað, með afgerandi hætti, tveimur tillögum sem lagðar voru fram opinberlega um siðferðilega og sjálfbæra matvælaframleiðslu. BBC greinir frá.

Gert er ráð fyrir að tillögurnar hafi verið felldar með yfir 60% atkvæða.

Tillögurnar voru lagðar fram með það að markmiði að styðja við ræktun í heimabyggð og efla sjálfbæran landbúnað.

Andstæðingar tillagnanna, sem voru m.a. leiðtogar á viðskiptamarkaði og svissneska ríkisstjórnin, ráðlögðu almenningi að kjósa gegn tillögunum með þeim rökum að matvælaverð myndi hækka og úrval minnka ef þær næðu fram að ganga.

Höfnun kjósenda eru sögð mikil vonbrigði fyrir bændahópa og baráttumenn „siðferðislegra matvæla“, samkvæmt blaðamanni BBC í Genf.

Vildu auknar kröfur

Með fyrstu tillögunni var óskað eftir aukinni opinberri aðstoð fyrir sjálfbærum vörum með dýravernd að markmiði auk ítarlegri vörumerkinga svo neytendur vissu hvað þeir væru að kaupa. Tillagan kallaði jafnframt á herferð gegn matarsóun og að innflutningsaðilar þyrftu að mæta svissneskum kröfum um starfsmannaréttindi, umhverfisöryggi og dýravelferð. Þetta hefði þýtt að svissneskir eftirlitsmenn hefðu kannað erlenda matvælaframleiðendur sem þyrftu að standast þær sömu kröfur.

Seinni tillagan, sem var kölluð „fullveldi matvæla“ gekk enn lengra, og kallaði eftir mun hærri opinberum fjárframlögum til stuðnings innlendra fjölskylduræktunarbúa, hærri innflutningsgjöldum á matvæli auk þess sem erlendar framleiðsluvörur sem ekki mættu svissneskum kröfum yrðu bannaðar.

Efnahagsráðherrann sagði tillögurnar hættulegar

Aðrar tillögur sem miðuðu að því að erlendir matvælaframleiðendur stæðust svissneskar kröfur varðandi sjálfbæran landbúnað og dýravernd höfðu einnig virst hafa góðan stuðning.

En á lokadögum herferðarinnar komu fram viðvaranir frá ríkisstjórninni um að mælingarnar væru óframkvæmanlegar og frá framleiðendum bárust þær fregnir að verðlag myndi hækka. Það sneri kjósendum augljóslega. Efnahagsráðherra Sviss hefur lýst tillögunum sem „hættulegum“ og sagði þær geta komið af stað gjaldhækkunum og öðrum hefndaraðgerðum frá viðskiptafélögum.

Vandamál tengd matvælaiðnaðinum eru þó ekki komin af borðinu í Sviss, en þegar hefur verið boðað til kosninga um meindýraeitur og fjöldaframleiðslu á dýraafurðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert