Stokkað upp í ríkisstjórn Frakklands

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron.
Forseti Frakklands, Emmanuel Macron. AFP

Forseti Frakklands, Emmanuel Macron, hefur gert breytingar á ríkisstjórn sinni en nýir innanríkis-, landbúnaðar- og menningarmálaráðherrar voru kynntir til leiks í dag. 

Fyrir tveimur vikum tilkynnti Gérard Collomb óvænt afsögn sína úr embætti innanríkisráðherra og hefur Macron skipað náinn samstarfsmann sinn úr La République En Marche-stjórnmálaflokknum, Christophe Castaner innanríkisráðherra í stað Collomb. Sá síðarnefndi snýr aftur heim til Lyon þar sem hann verður borgarstjóri.

Christophe Castaner er nýr innanríkisráherra.
Christophe Castaner er nýr innanríkisráherra. AFP

Franskir fjölmiðlar segja að Macron hafi ákveðið að reka landbúnaðar- og menningarmálaráðherrana úr embætti þar sem hann taldi þá veika hlekki í ríkisstjórn landsins. Í þeirra stað hefur hann skipað tvo reynslumikla stjórnmálamenn í embættin.

Didier Guillaume er landbúnaðarráðherra Frakklands.
Didier Guillaume er landbúnaðarráðherra Frakklands. AFP

Didier Guillaume, sem var áður í Sósíalistaflokknum, tekur við sem landbúnaðarráðherra af Stéphane Travert og Franck Riester, sem áður var þingmaður repúblikana, tekur við af útgefandanum fyrrverandi, Françoise Nyssen, í menningarmálaráðuneytinu.

Franck Riester er nýr menningarmálaráðherra.
Franck Riester er nýr menningarmálaráðherra. AFP

Macron skipaði einnig nýjan ráðherra til að fara með samskipti við sveitarstjórnir, Jacqueline Gourault, og bíður hennar erfitt hlutverk við að sætta sveitarstjórnir við fyrirhugaðan niðurskurð í fjárlögum franska ríkisins fyrir næsta ár. 

Jacqueline Gourault tekur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála.
Jacqueline Gourault tekur við ráðuneyti sveitarstjórnarmála. AFP

Mjög hefur dregið úr stuðningi við Macron og hefur hann ekki mælst jafnlítill og nú frá því Frakkar kusu sér nýjan forseta í maí 2017. Hann nýtur stuðnings um 30% kjósenda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert