50 farast er lest ekur á mannfjölda

Lögregla í Punjab ber hér einn hinna látnu frá slysstað.
Lögregla í Punjab ber hér einn hinna látnu frá slysstað. AFP

50 manns hið minnsta létust og 200 slösuðust er lest lenti á mannfjölda í nágrenni borgarinnar Amritsar í Punjab-héraði á Indlandi. BBC hefur eftir indversku lögreglunni að mannfjöldinn hafi staðið á lestarteinunum og verið að fylgjast með hátíðarhöldum tengdum Dusshera, einni af trúarhátíðum hindúa.

Mikill hávaði frá flugeldum, sem sprungu út úr líkneski djöflakonungsins Ravana, olli því að fólkið heyrði lestina ekki nálgast.

Myndir hafa verið birtar á samfélagsmiðlum af því er lestin lendir á mannfjöldanum, en skömmu fyrir slysið höfðu skipuleggjendur hátíðarinnar beðið áhorfendur um að flytja sig aftur á bak og nær lestarteinunum.

Lestin var á leið frá Jalandhar til Amritsar.

Amarinder Singh, ráðherra Punjab-héraðs, segir atburðinn „algjörlega átakanlegan“. „Við munum gera allt sem við getum til að aðstoða þá slösuðu,“ sagði hann á Twitter. „Við höfum fyrirskipað stjórninni á svæðinu að láta einskis ófreistað til að veita þeim bestu mögulegu meðferð.“

Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, hefur lýst atvikinu sem „hjartaskerandi“, en óttast er að tala látinna eigi eftir að hækka frekar.

Hindúar í borginni Amritsar fylgjast með líkneskjum af djöflakonunginum Ravana …
Hindúar í borginni Amritsar fylgjast með líkneskjum af djöflakonunginum Ravana brenna á Dussehra-trúarhátíðinni. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert