Greiða börnum bætur vegna flúoreitrunar

Börn að leik í Níger. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki …
Börn að leik í Níger. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Stjórnvöld í Níger munu greiða um þrjár milljónir evra í bætur til hundraða barna í bænum Tibiri, sem biðu skaða af að drekka vatn með miklu flúorinnihaldi að því er nígeríska ríkissjónvarpið hefur greint frá.

Heilbrigðisyfirvöld á staðnum reiknuðu út árið 2001 að um 4.918 ungmenni væru með aflöguð bein eftir að drekka vatn sem ríkisvatnsveitan SNE dreifði á svæðinu á árabilinu 1985-2000.

Við munum greiða. Það er engin ástæða fyrir stjórnvöld að hlýða ekki úrskurði dómstólsins,“ sagði fjármálaráðherrann Hassoumi Massoudou í þinginu. „Fjárhagslega er það ekki vandamál að greiða þessu unga fólki,“ bætti hann við og kvað ráðstafanir verða gerðar til að dóminum verði hlýtt. Hann gaf hins vegar ekki upp hvenær von væri á greiðslunum.

Dómstóll komst að þeirri niðurstöðu fyrir þremur árum að fórnarlömb á svæðinu, sem er um 650 km austur af höfuðborginni Niamey, ættu að hljóta bætur.

Sagði Massoudou stjórnvöld gera fé aðgengilegt til að bæta skaða barnanna.

Það voru ANDDH-mannréttindasamtökin í Níger sem greindu fyrst frá málinu eftir að læknar bentu  á fjölgun tilfella þar sem börn á aldrinum 15 mánaða til 15 ára væru með aflöguð bein. Meðal einkennanna voru stækkuð höfuðkúpa, sársauki í beinum, krampi og beinbrot, sem og rauðleitar tennur.

Rannsókn leiddi síðan í ljós að vatnið á svæðinu var með fjórum sinnum hærra flúorinnihald en Alþjóðaheilbrigðisstofnunin heimilar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert