Barn með 500 skammta af MDMA

Wenke Hope varðstjóri segir um stærsta fíkniefnamál í sögu fylkisins …
Wenke Hope varðstjóri segir um stærsta fíkniefnamál í sögu fylkisins að ræða þar sem barn undir lögaldri er tekið með efni en stúlkan sem um ræðir hafði undir höndum allt að 500 neysluskammta af MDMA. Ljósmynd/Lögreglan í Sognsæ og Firðafylki

Lögreglan í Florø í Sognsæ og Firðafylki á vesturströnd Noregs brást á laugardagskvöld við ábendingu um unglingateiti þar sem fíkniefni væru hugsanlega höfð um hönd. Lögregla mætti á staðinn með fíkniefnahund og hóf leit á vettvangi. Dýrið rann þegar á lyktina af hassi og áhöldum til neyslu þess en það reyndist aðeins byrjunin.

Unglingsstúlka á staðnum undir lögaldri, og þar með barn að norskum lögum, reyndist hafa í fórum sínum milli 70 og 100 neysluskammta af fíkniefninu MDMA sem er höfuðvímugjafinn í e-töflum en getur eitt og sér haft margfalt þyngri áhrif en töflurnar þar sem íblöndunarefni eru jafnframt með í uppskriftinni þegar e-töflur eru framleiddar.

Lögregla taldi ástæðu til að framkvæma húsleit á heimili stúlkunnar og kom þar ekki að tómum kofunum heldur fann magn einhvers staðar á bilinu 200 til 400 neysluskammta af efninu í viðbót við það sem stúlkan hafði á sér. Það er norski vefmiðillinn Firdaposten sem fyrst greindi frá þessu óvenjulega fíkniefnamáli Flóreyinga en hann krefst áskriftar og hefur norska ríkisútvarpið NRK einnig fjallað um málið.

Kærðu sig kollótt um neyslu annarra

„Við erum að tala hér um mjög mikið magn haldlagðra efna, allt að 500 neysluskammta,“ segir Wenke Hope, varðstjóri í lögregluliði Florø, í viðtali. „Við höfum aldrei lagt hald á annað eins magn hjá einstaklingi undir lögaldri,“ segir hún enn fremur og bætir því við að málið þyki óhugnanlegt. Hún segir frá því að kringumstæður hafi leitt til þess að lögregla ákvað að heimsækja aðra teiti í bænum sama kvöld. „Þetta var skelfilegt. Það voru krakkar í þessum samkvæmum sem voru ekki að nota fíkniefni, en létu sér í léttu rúmi liggja að aðrir væru að nota þau,“ segir Hope og bætir því við að ljóst sé af því magni, sem hald var lagt á hjá stúlkunni, að efnin hafi verið ætluð til sölu.

Útvarpsstöðin NRK P3 greindi frá því í fyrra, og bar norsku greiningarstofuna Norstat fyrir því, að 15 prósentum Norðmanna á aldrinum 18 til 30 ára hefði verið boðið efnið MDMA til neyslu. Hafði P3 það eftir Kari Frey Solvik, verkefnastjóra fíkniefnarannsókna hjá norsku rannsóknarlögreglunni Kripos, að það MDMA sem nú væri á markaðnum væri orðið margfalt sterkara en tíðkast hefði í árdaga MDMA- og e-töfluneyslu um og fyrir síðustu aldamót (saga MDMA er þó mun lengri, en efnið var fyrst útbúið árið 1912 og um 1970 var það notað við geðlækningar en er nú ólöglegt í flestum löndum og ekki talið hafa nokkurt læknisfræðilegt notagildi).

Í desember 2016 greindu norskir fjölmiðlar frá skýrslu fíkniefnaeftirlitsstofnunar  Evrópusambandsins, EMCDDA, þar sem fram kom að Óslóarbúar ættu Evrópumet í neyslu MDMA þar sem helgarneyslan væri 143,2 mg á hverja þúsund íbúa og voru niðurstöðurnar byggðar á efnagreiningu í skólplögnum evrópskra borga. Til samanburðar mældist Reykjavík með 46,2 mg á hverja þúsund íbúa, Barcelona 61,4 og hollenska borgin Eindhoven 141.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert