Danir líða ekki illa meðferð á samkynhneigðum

Paul Makonda, landstjóri í Dar es Salaam, hefur uppi orðræðu …
Paul Makonda, landstjóri í Dar es Salaam, hefur uppi orðræðu mjög fjandsamlega samkynhneigðum. Danir ætla ekki að líða það. AFP

Danir neita að láta 65 milljóna danskra króna styrk sem annars var fyrirhugaður í hendur ríkisstjórnar Tansaníu eftir „óviðunandi orðræðu um samkynhneigða“ kjörinna fulltrúa þarlendis. Þróunarstyrkurinn sem dreginn var til baka er andvirði 1,3 milljarða íslenskra króna.

Ulla Tornaes, þróunarmálaráðherra Dana, nefndi stjórnmálamanninn ekki á nafn en kvaðst „þungt hugsi“ yfir ummælum þeim sem stjórnmálamenn í Tansaníu hefðu verið að láta falla.

BBC segir frá þessu.

Sennilega vísar hún til ummæla Paul Makonda, landstjóra í aðalviðskiptaborg Tansaníu, Dar es Salaam. Hann mun sum sé hafa kallað eftir aðstoð almennings við að tilkynna menn grunaða um samkynhneigt athæfi til lögreglunnar. Hann sagðist ætla að koma á fót eftirlitsdeild til að fylgjast með samkynhneigðum.

Ríkisstjórn Tansaníu er þögul

„Ég hef þungar áhyggjur af neikvæðri framvindu mála í Tansaníu,“ sagði Tornaes. „Ég ætla því að draga styrkinn til baka. Virðing fyrir mannréttindum er lykilatriði fyrir Dani.“

Ríkisstjórnin tansaníska varði ummæli Makonda þegar þau féllu þannig, að hann væri að tala fyrir sjálfan sig, en ekki ríkisstjórnarstefnu. Samt er samkynhneigð ólögleg og refsiverð þar eystra og getur varðað allt að 30 ára fangelsi.

Að öðru leyti hefur ríkisstjórnin ekki lagt orð í belg en Makonda sagðist „frekar vilja styggja þessar þjóðir [eins og Dani] en að styggja sjálfan Guð“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert