Menntskælingar skilja ekki „trivial“

Nemar í Nýja-Sjálandi neita að láta draga sig niður fyrir …
Nemar í Nýja-Sjálandi neita að láta draga sig niður fyrir að misskilja eitt óalgengt orð. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Menntskælingar í Nýja-Sjálandi skilja ekki orðið „trivial“. Þeir krefjast þess við skólayfirvöld að vera ekki dregin niður á prófi fyrir að hafa lagt rangan skilning í orðið.

Meira en 2600 hafa skrifað undir áskorun um að draga ekki niður einkunn fólks sem misskildi þetta orð. Í prófi 14. nóvember þurftu nemendurnir að skrifa ritgerð með tilvitnun í Júlíus Sesar sem útgangspunkt:

„In war, events of importance are the result of trivial causes.“ Þetta útleggst á þá leið að í stríði verða meiriháttar tíðindi af minniháttar orsökum, eða, að oft velti lítil þúfa þungu hlassi.

Merking orðsins „trivial“ er því í þessu samhengi ‘minniháttar’, ‘ómerkilegt’, ‘tilviljanakennt og lítilsvert’. Nemendur munu langfæstir hafa þekkt orðið. Þeir sögðu sér til málsbóta, að orðið væri mjög sjaldgæft.

Höfundar prófsins sögðust hafa gert ráð fyrir því að menntaskólanemar myndu skilja þetta orð. Vandinn er sá að þeir gerðu það ekki en þurftu samt að skrifa ritgerð með orðið sem útgangspunkt. Ritgerðirnar þróuðust því margar í óvænta átt, að vonum, ef útgangspunkturinn sjálfur var misskilinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert