Játaði morð í atvinnuviðtali

Bandarískur hermaður að störfum í Afganistan árið 2010.
Bandarískur hermaður að störfum í Afganistan árið 2010. AFP

Bandarískur sérsveitarmaður hefur verið ákærður fyrir morð, en maðurinn er sagður hafa greint frá því þegar hann sótti um starf hjá bandarísku leyniþjónustunni (CIA). 

Hermaðurinn Matthew Golsteyn, sem var háttsettur liðsforingi og liðsmaður grænu alpahúfanna (e. green beret), er sagður hafa skotið afganskan mann til bana þegar hann var staddur í Afganistan árið 2010. Golsteyn sagði að hann hefði haldið að maðurinn væri sprengjugerðarmaður úr röðum talibana.

Hann tjáði sig einnig um atvikið í samtali við bandarísku fréttastöðina Fox News.

Golsteyn neitar sök og heldur því fram að hann hafi ekki brotið gegn reglum um hvernig hermaður eigi að bregðast við við ákveðnar aðstæður. 

Talsmaður Bandaríkjahers segir að yfirmaður Golsteyn hafi upplýst að sönnunargögn liggi fyrir sem sýni fram á sekt hans.

Lögmaður Golsteyn, Phil Stackhouse, segir í samtali við bandaríska fjölmiðla, að hann muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að haldi uppi vörn fyrir sinn skjólstæðing. Golsteyn fékk að vita af ákærunni á fimmtudag.

Matthew Golsteyn tjáði sig um atvikið í viðtali við Fox …
Matthew Golsteyn tjáði sig um atvikið í viðtali við Fox News.

Stackhouse segir að Golsteyn sé auðmjúkur hermaður sem hafi bjargað ótal mannlífum, bæði bandarískum og afgönskum. Hann hafi auk þess verið heiðraður fyrir sín störf. 

Fram kemur á vef BBC, að hann hafi höfuðsmaður þegar hann var verðlaunaður fyrir hetjudáð árið 2010, en þá hlaut hann silfurstjörnu hersins. Verðlaunin voru síðar uppfærð í sérstakan kross (e. Distinguished Service Cross) sem eru næst æðstu verðlaun sem eru veitt hermönnum fyrir hugrekki.

Þá kemur fram, að þegar Golsteyn var staðsettur í Afganistans þá hafi tveir hermenn úr hans deild látist þegar sprengigildra sprakk. 

Árið 2011 tók hann lygapróf þegar hann sótti um starf hjá CIA. Golsteyn mun hafa sagt að þann 22. febrúar 2010 hefði hann, ásamt öðrum hermanni, flutt afganskan mann, sem þeir voru með í haldi og töldu að væri sprengigerðarmaður fyrir talibana, úr herstöð, skotið hann til bana og grafið líkið. 

Þetta leiddi til þess að herinn hóf rannsókn á atvikinu 2011. Þremur árum síðar var hann aðeins áminntur þar sem skortur var á sönnunargögnum. 

Árið 2016 tjáði hann sig um atvikið í samtali við Fox News og segir frá því að hann hefði skotið manninn til bana. Golsteyn sagði að hann hefði gert þetta því hann hafði áhyggjur af því að maðurinn myndi myrða afganskan uppljóstrara ef honum yrði sleppt úr haldi. 

Bandarískur þingmaður tók málstað Golsteyn og skrifaði hernum bréf þar sem hann gerði athugasemdir við rannsóknina. 

Golsteyn var í framhaldinu settur í leyfi, en að sögn hersins var hann aftur kallaður til starfa. 

Hann hefur nú verið ákærður fyrir morð að yfirlögðu ráði og verði hann fundinn sekur getur hann átt dauðarefsingu yfir höfði sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert