„Okkar tími var ekki kominn“

Spænski leikarinn Dani Rovira og Martín Giacchetta voru að taka …
Spænski leikarinn Dani Rovira og Martín Giacchetta voru að taka þátt í hjólreiðaáskorun þegar ökumaður, sem var að teygja sig eftir símanum sínum, keyrði aftan á þá á fullri ferð. Ljósmynd/Instagram

Spænski leikarinn og uppistandarinn Dani Rovira komst naumlega lífs af í hjólreiðaslysi fyrir tveimur árum. Félagi hans sem lenti einnig í slysinu hefur nú birt magnþrungið myndband af því.

Rovira, sem er þekktastur fyrir hlutverk sitt í myndinni Spanish Affair, var að taka þátt í vitundarvakningu um rett-heilkenni, sjaldgæfan genasjúkdóm. Áskorunin fólst í að hjóla frá Barcelona til Rómar og voru Rovira og Martín Giacchetta, slökkviliðsmaður og faðir stúlku með rett-heilkenni, á fullri ferð á þjóðvegi í Frakklandi þegar ökumaður keyrir aftan á þá á ógnarhraða. Ökumaðurinn var að teygja sig eftir símanum sínum sem hafði dottið í gólfið skömmu áður.

Til allrar hamingju sluppu Rovira og Giacchetta ómeiddir, sem og ökumaðurinn, en hjólin gjöreyðilögðust. „Við erum enn þá hérna af því að okkar tími var ekki kominn,“ segir Rovira í myndskeiði sem Giacchetta birti á Instagram. Slysið hefur haft mikil áhrif á líf Rovira, sem hefur síðan þá hvatt ökumenn til að koma fram við hjólreiðamenn af virðingu. „Virðum hver annan á vegunum,“ segir hann.

Slysið náðist á myndband úr bifreið sem fylgdi Rovira og Giacchetta eftir þar sem gera átti heimildamynd um hjólaferðina og vitundarvakninguna. Rovira segist hafa verið í áfalli eftir slysið en að hann hafi ekki fundið fyrir hræðslu fyrr en hann steig aftur fæti á hjól, daginn eftir. „Þá byrjuðu fætur mínir að skjálfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert